Mjölnisholt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Mjölnisholt er gata í Rauðarárholti. Hún heitir ekki eftir tilteknum sveitabæ líkt og flestar nálægar götur heldur eftir grjótmulningsverksmiðjunni Mjölni hf. sem var reist þar á holtinu að frumkvæði Knud Zimsens. Ætlunin var að nota mulninginn frá verksmiðjunni til gatnagerðar en þáverandi bæjaryfirvöldum þótti hann of dýr. Ekki tókst heldur að selja hann í steinsteypu. Var þá brugðið á það ráð að steypa stein í mótum til húsbygginga. Til að sanna notagildi hans reisti Knud Zimsen 1905-6 hús hlaðið úr Mjölnissteini, það var nefnt Gimli. Ekki entist það heldur félaginu til langlífis og var því slitið 1910.

Mjölnisholt hét áður Mjölnisvegur og náði mun lengra í átt að sjó en nú er niður gegnum raðhúsablokkirnar og þar sem nú er Þórunnartún. Árið 1942 var heiti Mjölnisvegar breytt í Mjölnisholt og norðurhlutinn skorinn af og nefndur Skúlatún. Árið 2012 var breytt um heiti á Skúlatúni og gatan endurnefnd Þórunnartún eftir Þórunni Jónassen.