Miklavatn (Fljótum)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Miklavatn er 7,4 km² stöðuvatn í Fljótum í Skagafirði og er annað stærsta stöðuvatn héraðsins. Grandinn Hraunamöl skilur það frá sjó en frárennsli úr vatninu er um Hraunaós. Vatnið er gamall fjörður en grandinn hefur svo hlaðist upp og lokað honum.

Í vatninu er mikil silungsveiði en þar sem sjór gengur oft inn í vatnið og það er saltara á botninum veiðast þar einnig ýmsir sjávarfiskar. Í Miklavatn rennur Fljótaá úr Stífluvatni en einnig renna í það smærri ár og lækir.

Snemma á 20. öld var til umræðu að grafa skipgengan skurð í gegnum Hraunamöl og gera hafskipahöfn í Miklavatni en ekkert varð úr þeim áformum. Á 5. áratug aldarinnar höfðu sjóflugvélar sem stunduðu síldarleitarflug bækistöð á Miklavatni á sumrin.