Mary Douglas
Útlit
Mary Douglas (25. mars 1921 – 16. maí 2007) var breskur mannfræðingur sem er þekktust fyrir skrif sín um menningu, tákn og áhættu. Verk hennar teljast til félagsmannfræði. Hún aðhylltist strúktúralisma og hafði áhuga á samanburðartrúarbragðafræði. Þekktasta verk hennar er Purity and Danger frá 1966 þar sem hún greinir hugmyndir, tákn og siði í kringum hreinlæti og óhreinlæti í ólíkum samfélögum.
Mary Douglas lærði meðal annars hjá E. E. Evans-Pritchard og M. N. Srinivas í Oxford og starfaði um skeið hjá Bresku nýlenduskrifstofunni. Hún vann vettvangsrannsóknir 1949 meðal Lelea þar sem þá hét Belgíska Kongó. Hún fékk stöðu við University College London þar sem hún kenndi í 25 ár.