Marmaramálun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Marmaramálað altari í Þýskalandi

Marmaramálun er aðferð við að mála eftirlíkingu af marmara á yfirborð úr öðru efni. Marmaramálun er hluti af málaraiðn. Elstu þekktu dæmin um marmaraeftirlíkingar eru freskur á veggjum í rómversku borgunum Pompeii og Herculaneum og eru frá því skömmu eftir Krists burð.

Mismunandi aðferðir eru notaðar við marmaramálun eftir því hvert yfirborðið er, en algengast er að mála þekjandi grunnlit yfir yfirborðið og vinna síðan ofan á hann með hægþornandi málningu í ýmsum litum, eftir því hvaða marmara hermt er eftir. Yfirleitt eru notaðir litlir stífir penslar (listmálarapenslar), svampar og sköfur og stórir mjúkir penslar til að hylja pensilför.

Oft er marmaramálun notuð til að gefa heildaryfirbragð marmaraklæðningar án þess að beinlínis sé reynt að herma eftir tiltekinni tegund marmara. Þannig marmaramálun er algeng í ítölskum endurreisnarkirkjum. Annars staðar er reynt að herma eins nákvæmlega og hægt er eftir tilteknum marmara, helst þannig að ekki sjáist munur á. Sagt er að þessi raunsæisskóli í marmaramálun hafi fyrst þróast í Frakklandi eftir Frönsku byltinguna þegar þurfti að bæta skemmdir á marmaraklæðningum í höllum konungs.

Marmaramálaðir veggir, bekkir, listar og karmar eru víða í húsum á Íslandi. Þekktasta dæmið um marmaramálun er líklega stigagangurinn á Fríkirkjuvegi 11 sem Engilbert Gíslason vann fyrir Thor Jensen í upphafi 20. aldar. Engilbert hafði menntað sig í óðrun í Kaupmannahöfn og þekkti lítið til marmaramálunar en vann út frá bók með fyrirmyndum og þótti takast vel upp.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]