Fara í innihald

Marcus Vipsanius Agrippa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brjóstmynd af Agrippu

Marcus Vipsanius Agrippa (64 f.Kr. eða 63 f.Kr. – 12 f.Kr.) var rómverskur herstjóri, stjórnmálamaður og arkitekt. Agrippa var vinur og helsti herforingi Octavianusar (síðar Ágústusar) og einn mikilvægasti stuðningsmaður hans. Agrippa er almennt talinn hafa verið einn hæfasti herforingi í sögu Rómaveldis.

Agrippa tók þátt í orrustunni við Filippí með Octavíanusi og Marcusi Antoniusi, þar sem þeir sigruðu Brutus og Cassius, morðingja Caesars. Einnig stjórnaði Agrippa flota Octavianusar gegn Sextusi Pompeiusi, syni Pompeiusar, sem stjórnaði þá Sikiley í andstöðu við síðara þremenningasambandið. Sextus notaði flota sinn til þess að hindra mikilvægar kornsendingar til Rómaborgar sem olli alvarlegum matarskorti á Ítalíu og ógnaði vinsældum Octavíanusar. Það tók Agrippu nokkra mánuði að byggja flota og þjálfa menn í sjóhernaði en að því loknu vann hann afgerandi sigur á Sextusi Pompeiusi, sem flúði en náðist stuttu síðar og var tekinn af lífi. Ein frægasta orrusta sem Agrippa tók þátt í var orrustan við Actium þar sem þeir Octavianus börðust gegn Marcusi Antoniusi og Kleópötru. Sigur Octavianusar var að mestu Agrippu að þakka enda var hann mun hæfari herstjórnandi en Octavianus. Í tilefni af sigrinum lét Agrippa reisa fyrsta Pantheonhofið í Róm. Það hof skemmdist í eldi árið 80 en var endurbyggt í tíð Hadríanusar keisara og stendur enn. Eftir að Octavianus varð einvaldur (og tekið sér nafnið Ágústus) varð Agrippa hans nánasti samstarfsmaður. Líklega hefur Ágústus hugsað sér að Agrippa myndi taka við af sér sem keisari enda var Ágústus alla tíð heilsulítill. Það fór þó svo að Agrippa lést langt á undan Ágústusi, árið 12. f.Kr., rúmlega fimmtugur að aldri.