Mannát

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Mannæta)
Mannát eftir Leonhard Kern, árið 1650

Mannát er það að leggja sér til munns hluta mannslíkama, stundum kallað „mannakjöt“. Mannát er víðast hvar fordæmt núorðið en deilt er um hvort mannát hafi nokkurn tímann tíðkast mjög víða. Því hefur verið haldið fram að mannát hafi aldrei verið útbreitt og sögur af því ýkju- og lygasögur.[1] En víða hafa sögur verið sagðar af mannáti á sögulegum tíma. Forngríski sagnaritarinn Heródótos greinir til að mynda frá því í riti sínu að Messagetar hafi stundað mannfórnir og stundað mannát[2] og landræðingurinn Strabon greinir frá mannáti Kelta til forna.[3] Og margir mannfræðingar telja að mannát hafi áður fyrr tíðkast víða um heim.[4] Til dæmis eru fullyrðingar Strabons um mannát Kelta til forna studdar fornleifum.[5]

Hugsanlega hefur mannát einnig tíðkast á forsögulegum tíma. Sumir telja að Neanderdalsmenn hafi stundað mannát[6][7] og hugsanlegt er að nútímamenn hafi lagt sér kjöt Neanderdalsmanna til munns.[8]

Sumir ættflokkar á Papúa Nýju-Gíneu hafa stundað mannát, þar má nefna Fore-ættbálkinn þar sem uppgötvaðist að kuru-sjúkdómurinn smitaðist við át á heila ættingja. Fólk af Korowai-ættbálknum er sagt enn stunda mannát þótt dregið hafi úr því en það telur sig þó ekki mannætur þar sem aðeins eru etnir þeir sem taldir eru galdramenn og þar með ómennskir.[9]

Á Íslandi eru til ýmsar þjóðsögur um mannát, bæði útilegumannasögur, tröllasögur og ævintýri, en einnig frásagnir af fólki sem lagði sér mannakjöt til munns fremur en að svelta til bana í harðindum og í Húnvetninga sögu Gísla Konráðssonar er þessi frásögn af hungraðri skagfirskri flökkustúlku, Tófu-Gunnu frá Syðsta-Vatni, í Móðuharðindunum: „Hún fékk og gistingu á bæ einum í Refasveit. Lá þar barnslík í útikofa. Urðu menn varir við að hún gekk úr bóli sínu um nóttina, er þá var björt, og var komið að henni, að tekin var hún að skera vöðva úr líkinu og vildi éta, en varð hindruð.“[10]

Tegundir mannáts[breyta | breyta frumkóða]

Stundum er gerður greinarmunur á mannáti eftir því hvaða stöðu fórnarlambið hefur hjá þeim sem stunda mannátið. Í grófum dráttum felst munurinn í því að borða einstaklinga sem tilheyra ekki hópnum annars vegar og hins vegar að borða einstaklinga sem teljast til hópsins.[11][12]

Einnig er gerður greinarmunur á útfararmannáti annars vegar og stríðsmannáti hins vegar.[13][14] í fyrra tilvikinu leggja syrgjendur sér til munns kjöt eða líkamshluta látinna ættingja. Af þessu tagi er mannát það sem Heródótos greinir frá meðal Messagetanna[15] og einnig mannát Wari’-fólksins í Amazon-skóginum.[16] Á hinn bóginn felst stríðsmannát í því að leggja sér til munns kjöt eða líkamshluta fallinna andstæðinga í bardaga.

Mannát í bókmenntum og kvikmyndum[breyta | breyta frumkóða]

Mannát kemur fyrir í ýmsum grískum goðsögum þar sem það veldur ættarskömm og bölvun. Atreifur drap til að mynda bróðursyni sína og matreiddi þá ofan í bróður sinn Þýestes. Einnig í germönskum sögum, til dæmis drepur Guðrún Gjúkadóttir, eiginkona Atla Húnakonungs, syni þeirra og matreiðir þá ofan í hann.

Í barnabók Þórarins Leifssonar, Leyndarmálið hans pabba, er faðirinn mannæta en börnum hans leiðist það mjög og þau reyna að fá hann til að hætta því.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Arnar Árnason. „Eru til þjóðir sem borða mannakjöt? Hvar eru þær?“. Vísindavefurinn 25.2.2003. http://visindavefur.is/?id=3170. (Skoðað 19.10.2010).
 2. Herótótos I.126.
 3. Valgerður G. Johnsen. „Er rétt að Keltar hafi verið mannætur fyrir 2000 árum?“. Vísindavefurinn 6.3.2002. http://visindavefur.is/?id=2159. (Skoðað 19.10.2010).
 4. Arnar Árnason. „Eru til þjóðir sem borða mannakjöt? Hvar eru þær?“. Vísindavefurinn 25.2.2003. http://visindavefur.is/?id=3170. (Skoðað 19.10.2010).
 5. Valgerður G. Johnsen. „Er rétt að Keltar hafi verið mannætur fyrir 2000 árum?“. Vísindavefurinn 6.3.2002. http://visindavefur.is/?id=2159. (Skoðað 19.10.2010).
 6. „Neanderthals Were Cannibals, Bones Show“. Sciencemag.org. 1. október 1999. Sótt 30. ágúst 2009.
 7. „Archaeologists Rediscover Cannibals“. Sciencemag.org. 1. ágúst 1997. Sótt 30. ágúst 2009.
 8. McKie, Robin (17. maí 2009). „How Neanderthals met a grisly fate: devoured by humans“. The Observer. London. Sótt 18. maí 2009.
 9. „Sleeping with Cannibals. Smithsonian Magazine., september 2006. Skoðað 20. október 2010.
 10. Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, 1. bindi, 1685-1786. Reykjavík, Mál og mynd, 1998.
 11. Arnar Árnason. „Eru til þjóðir sem borða mannakjöt? Hvar eru þær?“. Vísindavefurinn 25.2.2003. http://visindavefur.is/?id=3170. (Skoðað 19.10.2010).
 12. JGÞ. „Eru til mannætur einhvers staðar í heiminum?“. Vísindavefurinn 2.4.2008. http://visindavefur.is/?id=7298. (Skoðað 19.10.2010).
 13. Arnar Árnason. „Eru til þjóðir sem borða mannakjöt? Hvar eru þær?“. Vísindavefurinn 25.2.2003. http://visindavefur.is/?id=3170. (Skoðað 19.10.2010).
 14. JGÞ. „Eru til mannætur einhvers staðar í heiminum?“. Vísindavefurinn 2.4.2008. http://visindavefur.is/?id=7298. (Skoðað 19.10.2010).
 15. Herótótos I.126.
 16. Arnar Árnason. „Eru til þjóðir sem borða mannakjöt? Hvar eru þær?“. Vísindavefurinn 25.2.2003. http://visindavefur.is/?id=3170. (Skoðað 19.10.2010).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]