Fara í innihald

Maðurinn með járngrímuna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teikning af manninum með járngrímuna frá árinu 1789.
Teikning af Bastillunni í París þar sem fanganum var haldið árum saman.

Maðurinn með járngrímuna (franska: L´Homme au Masque de Fer) var óþekktur fangi sem var í haldi frönsku krúnunnar á valdatíma Loðvíks 14. frakklandskonungs á 17. öld. Fanginn var í haldi í samfleytt 34 ár, m. a. í Bastillunni í París og í fangelsi á Sainte-Marguerite eyju, allt þar til hann lést árið 1703. Nafni hans var haldið leyndu og enn er ráðgáta hver hann var og fyrir hvaða sakir hann var fangelsaður þrátt fyrir miklar rannsóknir sagnfræðinga. Það litla sem vitað er um fangann er byggt á samtímaskjölum sem komu í leitirnar á 19. öld, þ.e. bréfaskiptum fangelsisyfirvalda.

Sagan segir að enginn hafi getað séð andlit fangans þar sem það hafi ávallt verið hulið dökku klæði, en síðari tíma rannsakendur draga þetta þó í efa og telja að fanganum hafi aðeins verið gert að hylja andlit sitt við flutning á milli staða. Ýmsar kenningar hafa komið fram um það hver fanginn var. Einna þekktust er kenning heimspekingsins Voltaire sem hélt því fram í ritinu Questions sur l´Encyclopédie árið 1771 að fanginn hefði verið eldri bróðir Loðvíks 14. Mikið hefur verið ritað um Manninn með járngrímuna í gegnum tíðina, m.a. í nokkrum bókum franska rithöfundarins Alexandre Dumas, og hann hefur verið efniviður í kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Einna þekktust er þar samnefnd kvikmynd frá árinu 1998 með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverki og sjónvarpsþættirnir Versalir.