Fara í innihald

Múslimahatur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Múslimaandúð)

Múslimahatur er orð sem er notað yfir andúð á múslimum, ásamt hegðun og orðræðu á grundvelli hennar.

Birtingarmyndir

[breyta | breyta frumkóða]

Múslimahatur hefur verið sagt birtast á ólíka vegu sem greina megi í sex flokka:

  1. Sem árás á fólk sem er talið vera múslimar: t.d. notkun ókvæðisorða, ýtingar, hrækjur, að toga slæður af múslimskum konum, barsmíðar og morð. Sameiginlegt slíkum atvikum er sagt að þau beinist að múslimum, ofbeldið sé tilefnislaust og það eigi sér stað í opinberum rýmum, svosem á götu eða í almenningsgarði.
  2. Sem árásir á eignir sem ætlað er að tengist múslimum: moskur, grafreiti, húsnæði fyrirtækja. Slíkar árásir geta falið í sér skemmdarverk, svo sem brotnar rúður, að fleygja svínshöfðum inn í moskur, og veggjakrot, íkveikjur, og vanhelgun grafa múslima.
  3. Sem ógnvekjandi athæfi. Slíkar aðgerðir eru skipulagðar af hópum, til dæmis með göngum í gegnum hverfi þar sem fjöldi íbúa eru múslimar; eða með auglýsingaherferðum sem beinast gegn Islam; eða með því að brenna eintök af Kóraninum.
  4. Sem stofnanabundið fyrirbæri þar sem ætlaðir múslimar fá verri meðferð en jafningjar þeirra í sambærilegum stöðum innan sömu stofnana. Slíkt getur falist í áreiti, einelti, meiðandi gríni, dreifingu verkefna, mati á frammistöðu og veitingu stöðuhækkana. Dæmi eru einnig reglur um klæðaburð sem þrengja meira að múslimum en öðrum.
  5. Sem viðvarandi, kerfisbundin framsetning á lítillækkandi ummælum um múslima eða Islam á opinberum vettvangi, hvort sem er vefsvæðum, dagblöðum, tímaritum eða öðrum miðlum.
  6. Sem athafnir ríkja, til dæmis með hertu eftirliti með samfélögum múslima, einkum af hálfum leyniþjónustustofnana og lögreglu; með dómstólum sem veita múslimum verri meðferð en öðrum; með takmörkunum á athöfnum múslima, til dæmis byggingu moska og reglum um múslimska klæðaburð (búrkubanni).[1]

Alþjóðlega

[breyta | breyta frumkóða]

Franska orðið islamophobie birtist fyrst á prenti árið 1910, í bókinni La politique musulmane dans l'Afrique Occidentale Française, þar sem höfundur gagnrýndi framkomu franskra nýlenduherra við menningu í nýlendum Frakka í Afríku.[2]

Á ensku nær saga orðsins islamophobia hið minnsta aftur til 1923, þegar orðið var skilgreint í ensku Oxford orðabókinni. Orðið var þó ekki í mikilli almennri notkun fyrr en undir lok 20. aldar.[3] Árið 1997 birtist orðið í skýrslu Runnymede sjóðsins. Þar var það skilgreint sem „tilhæfulaus styggð í garð múslima og þar með ótti eða andúð á öllum eða flestum múslimum.“[4]

Árið 2004 héldu Sameinuðu þjóðirnar ráðstefnu undir heitinu „Confronting Islamophobia: Education for Tolerance and Understanding“ eða: „Að svara múslimatri: menntun í þágu umburðarlyndis og skilnings“. Kofi Annan, aðalritari S.Þ., ávarpaði ráðstefnuna og sagði meðal annars: „[Þegar] hemiurinn þarf að skapa nýtt hugtak til að gera grein fyrir vaxandi útbreiðslu mismununar – það er dapurleg og áhyggjuverð þróun. Það er tilfellið með „múslimahatur“ … Frá árásunum á Bandaríkin 11. september [2001], hafa margir múslimar, einkum á Vesturlöndum, fundið fyrir vaxandi tortryggni, áreitni og mismunun.“[5]

Á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Íslenska þýðingin múslimahatur birtist í viðtali Morgunblaðsins við rithöfundinn Tariq Ali sem var gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2009. Hann sagði að „múslimahatur hafi aukist í Evrópu, fyrirbæri sem sé nákvæmlega eins og gyðingahatur fyrri tíma, nema að nú beinist það að fylgjendum annarra trúarbragða.“[6]

Þá var talað um múslimahatur í fréttaflutningi af norska hryðjuverkamanninum Anders Behring Breivik árið 2011.[7] Helsta tilefni hryðjuverkanna var „trú á samsæri múslima um að taka yfir Evrópu.“[8]

Bjarni Randver Sigurvinsson hélt fyrirlestur um múslimahatur á opnum fundi Mannréttindaráðs Reykjavíkur 2013.[9] Þar fjallaði hann um múslimahatur sem hatursorðræðu. Fyrirlesari sagði að múslimahatur hefði færst í aukana á Íslandi undanliðin ár og beindist meðal annars að áformum um byggingu mosku. Í fyrirlestrinum voru tekin dæmi af umræðum facebook-hópsins Mótmælum mosku á Íslandi[10]

  1. „S. Sayyid, „A Measure of Islamophobia" í Islamophobia Studies Journal, 2. bindi, 1. hefti, vor 2014, bls. 15–16“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. nóvember 2014. Sótt 6. júní 2014.
  2. Robin Richardson, „Islamophobia or anti-Muslim racism or what?: Concepts and terms revisited“. Þessi útgáfa: 2012 á vef Insted í Bretlandi. Fyrri útgáfur birtust m.a. í Pointing the Finger: Islam and Muslims in the British Media, ritstj. Richardson og Julian Petley, One World Publications, 2011.
  3. Oxford English Dctionary: Islamophobia, n.
  4. „Center for Race and Gender, vefsvæði rannsóknarverkefnis um múslimahatur“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. júlí 2011. Sótt 6. júní 2014.
  5. John L. Esposit og Ibraihm Kalin, í inngangi að Islamophobia: The Challenge of Pluralism in the 21st Century, bls. xxiv.
  6. Árni Matthíasson, „Maður má ekki gefast upp“, viðtal við Tariq Ali í Lesbók Morgunblaðsins, 5. september 2009, bls. 6.
  7. Sjá t.d. „Óttast að fleiri tengist ódæðinu“, frétt RÚV, 25. júlí 2011.
  8. „Liz Fekete, „The Muslim Conspiracy Theory and the Oslo Massacre" í tímaritinu Race & Class, 53. bindi, 3. hefti, janúar–mars 2012, bls. 30–47“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. júlí 2012. Sótt 6. júní 2014.
  9. Bjarni Randver Sigurvinsson, „Hatursumræða á netinu: Múslimahatur á Íslandi“, fyrirlestur á opnum fundi Mannréttindaráðs Reykjavíkur 10. desember 2013
  10. „Fjölmennur fundur um hatrusumræðu á netinu“, frétt af vefnum Reykjavik.is.