Fara í innihald

Míkhaíl Botvínník

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mikhail Botvinnik.

Mikhail Botvinnik (f. 1911 - d. 1995) var sovéskur stórmeistari í skák. Hann var heimsmeistari í skák á árunum 1948-1957, 1958-1960 og 1961-1963 og er almennt talinn í hópi bestu skákmanna sem uppi hafa verið. Hann varð sex sinnum skákmeistari Sovétríkjanna. Hann var meðal keppenda á hinu firnasterka AVRO-skákmóti í Hollandi árið 1938 þar sem áttust við átta sterkustu skákmenn heims. Botvinnik varð í þriðja sæti í mótinu á eftir Paul Keres og Reuben Fine og vann m.a. fræga skák gegn fyrrverandi heimsmeistara José Raúl Capablanca. Hann sigraði með nokkrum yfirburðum í heimsmeistarakeppninni sem fram fór í Haag og Moskvu árið 1948. Hann tefldi einvígi um heimsmeistaratitilinn við Davíð Bronstein árið 1951 og Vasilí Smyslov árið 1954 og hélt titlinum á jöfnu í bæði skipti. Botvinnik tapaði svo heimsmeistaratitlinum í hendur Smyslov í einvígi árið 1957, en tókst að endurheimta titilinn í öðru einvígi við Smyslov ári síðar. Árið 1960 tapaði Botvinnik heimsmeistaraeinvíginu gegn Mikhail Tal, en náði fram hefndum í öðru einvígi ári síðar. Botvinnik missti svo heimsmeistaratitilinn endanlega árið 1963 í einvígi gegn Tigran Petrosjan, en samkvæmt nýjum reglum Alþjóða skáksambandsins (FIDE) átti hann ekki lengur rétt á öðru einvígi. Botvinnik hélt áfram þátttöku á skákmótum til ársins 1970. Eftir það tók hann að sér þjálfun efnilegra skákmanna og starfrækti skákskóla í Sovétríkjunum. Hann þjálfaði m.a. bæði Anatoly Karpov og Garrí Kasparov sem báðir urðu heimsmeistarar í skák. Hann var frumkvöðull í þróun búnaðar til að gera tölvum kleift að tefla skák.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Alfræðibókin um skák. Dr. Ingimar Jónsson. Iðunn 1988.