Fara í innihald

Máldagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Máldagabók)

Máldagi er skjal, þar sem skráðar eru eignir kirkju og ýmis réttindi og tekjustofnar sem hún á að njóta. „Máldagi“ hefur einnig merkinguna „samningur“, og e.t.v. var máldagi kirkju upphaflega samningur um eignaskipti milli kirkjubóndans og kirkjunnar. Orðið máldagi var einkum notað í kaþólskri tíð.

Umsjónarmönnum kirkna var skylt að láta skrá máldaga viðkomandi kirkju og halda honum við. Biskupar höfðu eftirlit með því að það væri gert. Einnig átti að lesa máldagann upp einu sinni á ári við fjölmenna messu. Elsti máldagi sem varðveittur er í frumriti er Reykjaholtsmáldagi, um eignir Reykholtskirkju í Borgarfirði. Elsti hluti hans er frá því um 1180. Hugsanlegt er að rithönd Snorra Sturlusonar sé á hluta máldagans.

Sumir biskupar létu skrifa upp máldagasöfn allra kirkna í sínu biskupsdæmi. Meðal elstu máldagasafna eru Auðunarmáldagar, frá 1318, yfir Hólabiskupsdæmi, og Vilchinsmáldagar, frá því um 1397, yfir Skálholtsbiskupsdæmi. Þeir Auðunn rauði Hólabiskup og Vilchin Hinriksson Skálholtsbiskup létu taka saman þessi máldagasöfn.

Íslensku kirkjumáldagarnir eiga sér enga hliðstæðu í Norður-Evrópu, og veita mjög mikilvæga yfirsýn um eignir og búnað íslenskra kirkna frá því á 12. öld og fram yfir siðaskipti.