Fara í innihald

Ludvig Holm-Olsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ludvig Holm-Olsen (9. júní 191410. júní 1990) var norskur textafræðingur, og prófessor við Háskólann í Björgvin. Hann var rektor þar 1960–1965 og átti þá mikinn þátt í stækkun háskólans. Hann er einkum þekktur fyrir rannsóknir sínar á Konungs skuggsjá og Sverris sögu.

Foreldrar: Peter Olsen (1866–1950) skipstjóri, og kona hans Louise Holm (1885–1969).

Ludvig Holm-Olsen fæddist í Tromøy (nú Arendal) á Austur-Ögðum. Hann varð stúdent frá Frogner-skóla í Osló 1932, og cand. mag. frá Háskólanum í Osló 1940, með norsku sem aðalgrein. Hann var styrkþegi í norrænni textafræði við Háskólann í Osló 1945–1949, og varð síðan dósent þar. Á árunum 1941–1949 vann hann að tæmandi skrá um orðaforðann í Konungs skuggsjá, fyrir fornnorska orðabók (Gammelnorsk ordboksverk). Liður í því var útgáfa hans á aðalhandriti Konungs skuggsjár, 1945, ásamt brotum úr norskum handritum þess verks, og úrvali leshátta úr íslenskum handritum. Doktorsritgerð hans (1952) fjallaði um handrit Konungs skuggsjár. Þar lagði hann grunninn að vísindalegri útgáfu verksins, sem hann vann lengi að, en tókst ekki að ljúka. Sýnishorn kom út 1970.

Hann tók að sér að ljúka útgáfu á handritinu AM 81a fol. (Skálholtsbók yngstu), sem Albert Kjær hóf árið 1910, og gaf Ludvig út tvö síðustu heftin, 1947 og 1986. Í þessu handriti eru Sverris saga, Böglunga sögur og Hákonar saga Hákonarsonar. Í tengslum við það sökkti hann sér niður í rannsóknir á Sverris sögu og birti um söguna merka ritgerð: Studier i Sverres saga, 1953. Á efri árum sínum vann hann að því að kynna hina fornu bókmenningu fyrir almenningi, og má þar t.d. nefna bókina Lys over norrøn kultur, sem er mjög gott yfirlit um sögu norrænna fræða í Noregi.

Ludvig Holm-Olsen var prófessor í norrænni textafræði við Háskólann í Björgvin 1953–1981. Sem deildarforseti 1956–1958 og rektor 1960–1965 þurfti hann að helga sig stjórnunarstörfum og áætlanagerð fyrir stofnun sem var í örum vexti. Til að efla sína eigin deild lagði hann t.d. áherslu á að efla bókasafnið, og útvegði dýrmætt bókasafn föðurbróður síns, Magnúsar Olsen, og ljósmyndir af norskum miðaldahandritum í öðrum söfnum.

Hann var ritstjóri tímaritsins Maal og minne 1951–1984 og var í ritstjórn Arkiv för nordisk filologi 1963–1990. Hann varð félagi í Norsku vísindaakademíunni 1953, var sæmdur St. Ólafs-orðunni 1967 og stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

Í tilefni af sjötugsafmælinu var gefið út heiðursrit: Festskrift til Ludvig Holm-Olsen på hans 70-årsdag den 9. juni 1984, með greinum fjölmargra fræðimanna. Þar er einnig ritaskrá afmælisbarnsins.

Ludvig Holm-Olsen giftist 1941, kona hans var Elsa Dorothea Triseth (f. 1913).

  • Den gammelnorske oversettelsen av Pamphilus. Med en undersøgelse av paleografi og lydverk. Oslo 1940. — Kandídatsritgerð.
  • Håndskriftene av Konungs skuggsjá. En undersøgelse av deres tekstkritiske verdi. København 1952. Bibliotheca Arnamagnæana XIII — Doktorsritgerð.
  • Studier i Sverres saga. Oslo 1953.
  • Fra runene til Norske selskab. Oslo 1974, 15–342. Með Kjell Heggelund. — Fyrsta bindi í norskri bókmenntasögu, þar sem einkum er fjallað um norska þáttinn í norsk-íslenskri bókmenningu.
  • Lys over norrøn kultur. Norrøne studier i Norge. Oslo 1981. — Mjög læsilegt yfirlitsrit um sögu norrænna fræða í Noregi.
  • Med fjærpenn og pergament. Vår skriftkultur i middelalderen. Oslo 1990. — Yfirlit um norsk miðaldahandrit, og að einhverju leyti íslensk handrit einnig.
  • Konungs skuggsjá. Oslo 1945. Endurskoðuð útgáfa 1983, með nýjum formála og viðbótar lesháttum.
  • Det Arnamagnæanske håndskrift 81a fol (Skálholtsbók yngsta), 4. og 5. hefti. Oslo 1947 og 1986. — Albert Kjær gaf út 1.–3. hefti.
  • Utvalgte stykker av Konungs skuggsjá. Oslo 1970.

Þýðingar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Eddadikt. 1975.
  • Norsk biografisk leksikon 4, Oslo 2001.