Loðinn leppur
Loðinn leppur (d. 1288) var norskur hirðmaður og sendimaður Noregskonungs. Hann kom til Íslands árið 1280 ásamt Jóni Einarssyni og höfðu þeir með sér nýja lögbók, sem síðan hefur verið kennd við Jón og kölluð Jónsbók, og vildu fá hana lögtekna. Magnús lagabætir hafði látið gera bókina en hann dó raunar vorið 1280 og þeir Jón og Loðinn komu því í umboði Eiríks sonar hans. Þeir ferðuðust um landið með bókina en um veturinn var Loðinn á Seltjarnarnesi og veitti allstórmannlega að sögn.
Íslendingar fengu að kynna sér bókina um veturinn og virðist ekki alls kostar hafa líkað það sem þeir lásu, þótti konungsvaldið fullfyrirferðarmikið í hinum nýju lögum og refsingar of harðar, og Árna biskupi og klerkavaldinu þótti hlutur kirkjunnar ekki nógu góður. Þegar samþykkt bókarinnar var tekin fyrir á Alþingi 1281 voru því margar mótbárur gegn henni og Íslendingar neituðu að samþykkja hana nema með ýmsum breytingum.
Loðinn leppur brást hart við, varð „mjög heitur at búkarlar skyldu gera sig svá digra at þeir vildu skipa lögum“. Hann kvað konunung hafa rétt á að setja hér lög og Alþingi mætti ekki setja sig á móti vilja hans; þingheimur skyldi samþykkja alla bókina en svo mætti gera athugasemdir seinna og reyna að ná fram breytingum. Þetta sjónarmið hlaut engan hljómgrunn, hvorki hjá leikmönnum né Árna biskupi, og Íslendingar kváðust „eigi mundu tapa svá frelsi landsins“.
Þá breytti Loðinn um aðferð og reyndi að sundra samstöðu Íslendinga, meðal annars með þvi að gagnrýna íslensku tíundina og kvað hana okur, en hér var tekin tíund af dauðum hlutum (eignarskattur), sem ekki var gert annars staðar, þar var tíundin tekjuskattur. „Þér biskuparnir heimtið tíund af sylgjum ok silfurbeltum, koppum ok kirnum ok öðru dauðu fé, ok undra ek mik, hví landsbýit þolir yðr slíkar óhæfur, ok gerid eigi norræna tíund at eins, þá sem gengur um allan heiminn ok einsaman er rétt ok lögtekin,“ er haft eftir Loðni í Árna sögu biskups. Biskupinn mótmælti þessu og sagði að páfi hefði sagt að tíundin ynni engri sálu tjón.
Á endanum náðist málamiðlun og Jónsbók var samþykkt með lófataki að undanskildum fáeinum köflum sem ákveðið var að vísa til konungs og erkibiskups og reyna að fá fram breytingar, en hvaða kaflar þetta voru eða hvernig tilraunir til breytinga gengu er ekki vitað. Réttarbætur komu þó fram nokkrum sinnum á næstu áratugum.
Loðinn hafði ferðast víða á vegum Magnúsar lagabætis og Hákonar gamla, fylgdi meðal annars Kristínu dóttur Hákonar til Spánar þegar hún var send þangað 1258 til að giftast Filippusi Kastilíuprinsi og var seinna sendur til Túnis og Egyptalands í erindum konungs. „Þessi Loðinn hafdi verid nokkrum sinnum med sendingum Magnúss konungs til ýmissa landa ok svá út í Babiloniam; var hann af þessu frægr mjök,“ stendur í Árna sögu biskups. Loðinn leppur dó 1288.
Loðinn hefur fengið ill eftirmæli á Íslandi og er oft gripið til nafns hans þegar rætt er um útlendinga sem þykja sýna Íslendingum yfirgang eða reyna að þvinga þá til að samþykkja eitthvað óhagstætt.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Sigurðsson, Guðbrandur Vigfússon, Þorvaldur Björnsson (ritstj.) (1858). Biskupa sögur. Hið íslenzka bókmenntafélag.
- „Salmonsens konversationsleksikon“.
- „Yfirlit yfir lagasögu Íslands. Lögfræðingur 1. tbl. 1899“.
- „Bikarinn í Leon. Lesbók Morgunblaðsins 16. tbl. 1981“.