Fara í innihald

Litla-Dímun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Litla-Dímun
Staðsetning Litlu-Dímunar á Færeyjakorti

Litla-Dímun (færeyska: Lítla Dímun) er minnsta eyja Færeyja, um 0,8 km² að stærð, og er á milli Suðureyjar og Stóru-Dímunar. Eyjan er hömrum girt, nema að sunnan og ofan við hamrana taka við brattar fjallshlíðar en toppur fjallsins, sem heitir Slættirnir og er 414 m hátt, er flatur. Aldrei hefur verið byggð í eynni og hefur hún lengst af verið eina óbyggða eyjan í Færeyjum. Á eyjunni eru aðeins sauðfé og sjófuglar og er þar talin beit fyrir 270-300 kindur.

Litla-Dímun var áður konungseign en leigð Suðureyingum, einkum íbúum Hvalbæjar. Hún var seld á uppboði árið 1850 og höfðu þá Hvalbæjarbúar og Sandvíkingar tekið saman höndum um að bjóða í hana en faktorinn á Þvereyri bauð á móti og seldist eyjan á nærri 5000 ríkisdali, sem var mjög hátt verð.

Á eynni var sérstakt sauðfjárkyn sem nú er útdautt. Kindurnar líktust geitum, voru svartar og snögghærðar og minni en aðrar færeyskar kindur en líktust Soay-fénu á Sankti Kilda. Þær voru styggar og erfitt að smala þeim og nokkrum árum eftir að konungur seldi eyna var þeim smalað saman og slátrað en þær sem ekki náðust voru skotnar á færi. Uppstoppaður hrútur, ær og lamb af Litlu-Dímunarkyninu eru þó á Fornminjasafni Færeyja.

Þrír kofar eru á eynni sem eru notaðir þegar verið er að sinna fénu. Árið 1918 strandaði danska skonnortan Casper við Litlu-Dímun í óveðri en skipverjum, sex að tölu, tókst að komast á land. Þeir gátu klifrað upp þar til þeir fundu kofa og þar voru eldspýtur, eldstæði og eldiviður og þeim tókst að handsama tvær kindur og lemstraðan fugl. Á þessu lifðu þeir í sautján daga en þá tókst þeim að vekja athygli skipverja á færeyskri skútu á sér og var bjargað.