Launhelgar Míþrasar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lágmyndir sem sýna Míþras

Launhelgar Míþrasar voru launhelgar sem stundaðar voru í Rómaveldi frá 1. til 4. aldar e.Kr. Launhelgarnar notuðust við nafn persneska guðsins Míþra (sem varð Míþras í grísku) þótt í raun væri um að ræða sérstök trúarbrögð, ólík persneskum sóróisma. Launhelgarnar voru sérstaklega útbreiddar í rómverska hernum. Hundruð Míþrasarhofa (Mithraeum) hafa fundist allt frá Sýrlandi til Bretlands.

Míþras Rómverja er oft sýndur með sólguðinum Sol Invictus. Algeng helgimynd af Míþrasi sýnir hann í anatólískum fatnaði með frýgverska húfu, drepa heilagt naut. Á myndinni eru gjarnan líka sýnd sólguðinn og tunglgyðja Luna og kyndilberarnir Cautes og Cautopates (sem stundum bera krókstafi fjárhirða í stað kyndla).

Míþrasardýrkun fór fram sem launhelgar og þátttakendur voru látnir sverja þagnareið við innvígslu. Vegna þessa eru heimildir um dýrkunina mjög af skornum skammti. Sumir fræðimenn hafa haldið því fram að fæðing Míþrasar og þar með upphaf nýs árs meðal dýrkenda hans hafi verið fæðingardagur Sol Invictus við vetrarsólhvörf, 25. desember, en aðrir telja engar haldbærar sannanir fyrir þeirri dagsetningu.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.