Fara í innihald

Langanes

Hnit: 66°12′57″N 15°08′20″V / 66.21583°N 15.13889°V / 66.21583; -15.13889
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

66°12′57″N 15°08′20″V / 66.21583°N 15.13889°V / 66.21583; -15.13889

Langanesskagi grænmerktur

Langanes er stór skagi fyrir austan Þistilfjörð og norðan við Bakkaflóa. Skaginn teygist næstum 40 km út í hafið til norðausturs, allbreiður vestast en mjókkar út í örmjóan bjargtanga austast sem heitir Fontur. Framnes er sá hluti Langaness kallaður, sem er sunnan Þórshafnar, miðnes út að Eiðisskarði en utan þess útnes. Öll býli á útnesinu eru nú komin í eyði. Nesið hefur ávallt verið strjálbýlt, stærsta byggðin er sjávarþorpið Þórshöfn á vesturströndinni.

Lág fjöll og fell liggja norður eftir Langanesi, 200-400 m há og er austurhlutinn miklu hálendari og undirlendi lítið. Gunnólfsvíkurfjall er hæsta fjallið, 719 m. Nálægt miðju nesinu er Eiðisskarð, sem sker fjallgarðinn. Að norðanverðu er Langanes láglent og er breiðasta undirlendið frá Sauðanesi og út að Heiðarfjalli. Útnesið er víða grýtt og hrjóstrugt en að sunnanverðu er það betur gróið. Fjöllin eru úr móbergi að suðaustanverðu en að öðru leyti er nesið úr grágrýti. Láglendið skiptist að mestu í mýrar, grýtta mela og holt. Nokkrar sjaldgæfar jurtategundir vaxa á Langanesi svo sem flétta ein sem kallast klettakróða.

Mikið fuglalíf er á Langanesi, það eru einkum lundi, langvía, álka, teista, fýll og rita sem verpa þar í fuglabjörgum. Undir Skoruvíkurbjargi er klettadrangur, sem heitir Stórikarl og er þar eina súlubyggðin á þessum slóðum.

Bandaríkjaher rak ratsjárstöð á Heiðarfjalli 1954-68. Önnur ratsjárstöð á vegum NATO var reist á Gunnólfsvíkurfjalli 1989.