Kristín Ólína Thoroddsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristín Ólína Thoroddsen (f. 29. apríl 1894, d. 28. febrúar 1961) var yfirhjúkrunarkona, forstöðukona Landspítalans og skólastýra Hjúkrunarkvennaskólans.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Kristín fæddist á Ísafirði. Foreldrar hennar voru Skúli Thoroddsen sýslumaður, bæjarstjóri, ritstjóri og alþingismaður, og kona hans Theodóra Thoroddsen húsfreyja og skáldkona.

Kristín ólst upp á miklu menningarheimili á Ísafirði, Bessastöðum og í Vonarstræti 12 í Reykjavík. Hún var ein þrettán systkina; systkini hennar eru: Unnur húsfreyja, Guðmundur, prófessor og yfirlæknir, Þorvaldur lést í frumbernsku, Skúli, yfirdómslögmaður og alþingismaður, Þorvaldur fór til Vesturheims. Katrín læknir, alþingismaður og bæjarfulltrúi, Jón lögfræðingur og skáld, sem lést ungur, Ragnhildur húsfreyja, Bolli borgarverkfræðingur, Sigurður verkfræðingur og alþingismaður, Sverrir bankafulltrúi og María Kristín húsfreyja.

Kristín varð gagnfræðingur úr Menntaskólanum í Reykjavík 1910. Hún lauk hjúkrunarnámi frá Kommunehospitalet í Esbjerg í janúar 1918. Þá var hún við framhaldsnám á fæðingardeild Rigshospitalets í Kaupmannahöfn og röntgendeild Bispebjerg hospital. Hún nam einnig heilsuvernd við Bedford College í Lundúnum 1925-1926; sem og við The Presbyterian Hospital í New York.

Kristín varð hjúkrunarkona við Röntgenstofnunina í Reykjavík 1918-1920, Hospital de Ninos (barnasjúkrahús) í Valpariaso í Síle 1920-1923. Hún var einkahjúkrunarkona í New York á vegum The Presbytarian Hospital 1924-1926; hjá Rauða krossi Íslands var hún árin 1926-1930. Kristín varð yfirhjúkrunarkona við Holdsveikispítalann í Laugarnesi 1930-1931; forstöðukona Landspítalans 1931-1954, og skólastjóri Hjúkrunarkvennaskóla Íslands frá stofun hans 1931-1948.

Kristíu var veitt heiðursmerki Rauða kross Íslands, og sæmd Riddarakrossi Fálkaorðunnar.

Kristín var ógift og barnlaus.