Fara í innihald

Kormákur Ögmundarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kormákur Ögmundarson var íslenskt skáld um miðja 10. öld, sonur Ögmundar Kormákssonar á Mel í Miðfirði og Döllu Önundardóttur. Um hann er Kormáks saga, sem talin er ein af eldri Íslendingasögum, en einnig er hans getið í Grettis sögu, Egils sögu og Landnámabók. Honum er svo lýst í Kormáks sögu:„Hann var svartr á hár ok sveipr í hárinu, hörundljóss ok nökkut líkr móður sinni, mikill ok sterkr, áhlaupamaðr í skapi.“

Kormáks saga fjallar aðallega um ástir Kormáks og Steingerðar Þorkelsdóttur og virðist vera að miklu leyti skrifuð í kringum ástarvísur sem hann orti til hennar. Brúðkaup þeirra hafði verið ákveðið en vegna álaga sem fjölkunnug kona að nafni Þórveig hafði lagt á Kormák varð ekkert af því. Steingerður giftist svo Hólmgöngu-Bersa og skoraði Kormákur hann á hólm en felldi hann þó ekki. Seinna sagði Steingerður skilið við Bersa og giftist þá manni sem hét Þorvaldur tinteinn. Kormákur fór til Noregs og í herför til Írlands með Haraldi konungi gráfeldi, kom aftur heim en fór utan öðru sinni, var með Sigurði jarli Hákonarsyni og orti þá Sigurðardrápu, sem varðveitt er í Snorra-Eddu. Hann féll að lokum á Skotlandi.

Fundum þeirra Steingerðar bar oft saman og ástin milli þeirra slokknaði ekki en aldrei náðu þau þó saman vegna álaga Þórveigar. Margar af ástavísunum sem Kormákur orti til Steingerðar þykja sérlega fallegar. Þekktust þeirra er ef til vill þessi vísa:

Brámáni skein brúna
brims und ljósum himni
Hristar hörvi glæstrar
haukfránn á mig lauka.
En sá geisli sýslir
síðan gullhrings Fríðar
hvarma tungls og hringa
Hlínar óþurft mína.