Kleópatra 2.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kleópatra 2. í gervi Ísisar.

Kleópatra 2. (gríska: Κλεοπάτρα; um 185 – 116 f.Kr.) var drottning og um tíma einvaldur í Egyptalandi á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Ptólemajosar 5. og Kleópötru 1.

Hún giftist bróður sínum, konunginum Ptólemajosi 6., 176 f.Kr. ári eftir andlát móður þeirra Kleópötru 1. sem stjórnaði ríkinu fyrir hönd sonar síns. Þau voru bæði á barnsaldri og stjórn ríkisins í höndum ráðherra. Árið 170 f.Kr. sögðu ráðherrarnir Eulaeus og Lenaeus Selevkídaríkinu stríð á hendur vegna Koíle-Sýrlands. Antíokkos 4. gerði þá innrás í Egyptaland og náði konunginum á sitt vald. Ptólemajos varð þá leppkonungur Antíokkosar. Þegar Antíokkos hvarf á braut kusu íbúar Alexandríu bróður hans, Ptólemajos 8. sem var kallaður „Fyskon“, fyrir konung, en í stað þess að berjast um völdin ákváðu bræðurnir að ríkja saman ásamt systur sinni. Árið 164 f.Kr. steypti Fyskon systkinum sínum af stóli um stutt skeið en árið eftir voru þau endurreist.

Kleópatra og Ptólemajos 6. áttu fjögur börn; Ptólemajos Evpator, Kleópötru Þeu, Bereníku, Kleópötru 3. og Ptólemajos 7. (líklega).

Þegar Ptólemajos 6. lést í herför árið 145 f.Kr. lýsti Kleópatra son þeirra konung en þá sneri Fyskon aftur og bauð henni að deila völdum og giftast. Kleópatra giftist því Fyskoni en í brúðkaupsveislunni lét hann myrða Ptólemajos, son hennar. Kleópatra og Fyskon eignuðust einn son; Ptólemajos Memfítes. Árið 139 f.Kr. tók Fyskon dóttur hennar, Kleópötru 3., sem eiginkonu.

Árið 132 f.Kr. leiddi Kleópatra uppreisn íbúa Alexandríu gegn Fyskoni og Kleópötru 3. til að koma syni þeirra, Memfítes, til valda. Valdaránið tókst og Fyskon og Kleópatra 3. hröktust til Kýpur með börnum sínum. Fyskon náði samt Memfítes á sitt vald, lét drepa hann og höggva líkið í sundur og senda Kleópötru. Þetta leiddi til borgarastyrjaldar þar sem Egyptaland utan Alexandríu studdi Fyskon gegn Kleópötru. Árið 127 f.Kr. flúði hún því til Sýrlands til dóttur sinnar Kleópötru Þeu og tengdasonar Demetríosar 2. Alexandría stóð áfram gegn Fyskoni en árið eftir náði hann borginni á sitt vald. Lýst var yfir opinberri sátt milli Kleópötru og Fyskons árið 124 f.Kr. og hún sneri aftur til Egyptalands. Þau ríktu því saman til 116 f.Kr. þegar Fyskon lést og Kleópatra 3. tók við völdum fyrir hönd sonar síns. Skömmu síðar lést hún sjálf.