Fara í innihald

Kleópatra 5.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kleópatra 5. Trýfaína (gríska: Κλεοπάτρα; um 95 f.Kr. – um 69/68 f.Kr. eða um 57 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún er sú eina af eiginkonum Ptólemajosar 12. sem vitað er um með vissu.

Hún kann að hafa verið óskilgetin dóttir Ptólemajosar 9. Önnur kenning er að hún hafi verið dóttir Ptólemajosar 10. og Bereníku 3. Hún giftist Ptólemajosi 12. árið 79 f.Kr. en nafn hennar tók að hverfa úr heimildum um það leyti sem Kleópatra 7. fæddist, eða um 69 f.Kr. Hins vegar er minnst á Kleópötru Trýfaínu löngu síðar, eða 58 og 57 f.Kr., sem ríkjandi drottningu við hlið Bereníke 4. Sumir telja þessa Kleópötru hafa verið dóttur hinnar og því Kleópötru 6. meðan aðrir telja að um sömu konu sé að ræða. Það kemur heim og saman við frásögn Strabons sem segir að Ptólemajos 12. hafi átt þrjár dætur, sem væru þá Bereníke 4., Kleópatra 7. og Arsinóe 4.

Þýski sagnfræðingurinn Werner Huß setti fram þá kenningu að Ptólemajos hafi skilið við Kleópötru um 69 f.Kr. en að dóttir hennar, Bereníke, hafi sett hana til valda eftir að faðir hennar flúði frá Egyptalandi 58 f.Kr. Hún hafi síðan dáið ári eftir það, því nafn hennar hverfur aftur úr heimildum eftir 57 f.Kr.