Fara í innihald

Bereníke 3.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bereníke og Kleópatra Selena

Bereníke 3. eða Kleópatra Bereníke (gríska: Βερενίκη; 115 eða 114 f.Kr. – 80 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins.

Hún var dóttir Ptólemajosar 9. og Kleópötru Selenu. Þegar amma hennar, Kleópatra 3., steypti föður hennar af stóli og gerði frænda hennar Ptólemajos 10. að konungi árið 101 f.Kr. var hún gift honum. Þegar faðir hennar tók aftur völdin 88 f.Kr. var hann orðinn aldraður og hún tók því virkan þátt í stjórn ríkisins. Eftir andlát hans varð hún einvaldur í Egyptalandi en þar sem konur gátu ekki ríkt einar neyddist hún til að finna sér eiginmann. Hún ritaði þá Súllu sem hafði stjúpson hennar, Ptólemajos 11., í haldi í Róm um að hann giftist henni og tæki við völdum. Súlla lét henni þetta eftir en með því skilyrði að ef Ptólemajosi yrði ekki barna auðið gengi ríkið til Rómaveldis.

Einungis nítján dögum eftir brúðkaup Ptólemajosar og Bereníke lét hann myrða hana. Bereníke naut mikillar lýðhylli í Alexandríu. Múgurinn reis því upp gegn Ptólemajosi og drap hann.

Eftir þetta gerðu Rómverjar tilkall til Egyptalands, en þá voru tveir óskilgetnir synir Ptólemajosar 9., settir til valda. Súlla var þá nýorðinn einvaldur í Róm eftir aðra borgarastyrjöld Súllu og neyddist til að láta kyrrt liggja. Rómverjar áttu þó síðar eftir að nýta sér þetta til að réttlæta tilkall sitt til Egyptalands.

Bereníke er aðalpersóna óperunnar Bereníke eftir Georg Friedrich Händel.