Klömbrur
Klömbrur var býli í Reykjavík sem Maggi Júl. Magnús, læknir og borgarfulltrúi, lét byggja árið 1925 á landi rétt austan við svæðið þar sem nú er hverfið Norðurmýri í Reykjavík. Nafn býlisins var dregið af fæðingarbæ Magga, að Klömbrum í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu.
Eftir tæplega áratugs búrekstur Magga komst Klömbrur í eigu dansks manns, Christians H. Christensen, sem hingað fluttist um tvítugt. Árið 1934 festi hann kaup á Klömbrum og hóf búrekstur. Tíu árum síðar stofnaði hann fyrirtækið Kjöthöllina og rak þá verslun og sláturhús í hluta bæjarhúsanna. Jafnframt var þar starfrækt reykhús sem naut vinsælda reykvískra laxveiðimanna. Kjötvinnslan fluttist yfir á Háteigsveg árið 1953. Undir lok sjötta áratugarins ákváðu borgaryfirvöld að þau vildu losna við býlið og skipuleggja á svæðinu almenningsgarð, Miklatún, nú Klambratún. Niðurrif bæjarhúsanna átti sér þó ekki stað fyrr en árið 1965.[1]