Fara í innihald

Kjartan Ólafsson (Laxdælu)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kjartan Ólafsson var íslenskur kappi á söguöld. Hann var af ætt Laxdæla og er persóna í Laxdælu. Kjartan var sonur Þorgerðar Egilsdóttur, dóttur Egils Skallagrímssonar, og Ólafs pá. Kjartan var „allra manna vænstur þeirra er fæðst hafa á Íslandi“ eins og segir í Laxdælu.

Þegar Kjartan var í æsku urðu ýfingar á milli hálfbræðranna Ólafs pá, föður Kjartans, og Þorleiks Höskuldssonar, en þegar þeir sættust bauðst Ólafur til að taka Bolla son Þorleiks í fóstur og ólust þeir Kjartan upp saman. Fóstbræðurnir Kjartan og Bolli fóru oft í Sælingsdalslaug og þar kom Guðrún Ósvífursdóttir oft til þeirra og fór mjög vel á með þeim Kjartani. En Kjartan hafði hug á að fara til Noregs og varð úr að hann keypti helming í skipi sem Kálfur Ásgeirsson átti og fóru þeir Bolli fóru út. Þeir ætluðu að vera í þrjá vetur en Guðrún var ekki sátt við það og skildu þau ósátt.

Í Niðarósi í Noregi kynntust þeir Ólafi konungi Tryggvasyni eftir að þeir Kjartan höfðu keppst um að kaffæra hvor annan í ánni Nið. Þeir létu skírast eftir nokkurt þóf og vildi konungur að þeir færu heim og boðuðu Íslendingum kristni. En þegar þrír vetur voru liðnir og Bolli bjóst til heimfarar vildi konungur ekki láta Kjartan lausan og hélt honum og þremur öðrum Íslendingum í gíslingu. Hann bað þó Bolla að skila kveðju til frænda og vina á Íslandi og átti þar við Guðrúnu. Bolli gerði það þó ekki, heldur lét hann í það skína að Kjartan hefði lagt hug á Ingibjörgu konungssystur, sem þótti kvenna fegurst, og óvíst að hann kæmi aftur á næstunni. Síðan bað hann sjálfur Guðrúnar og þau giftust. Guðrún hafði þó áður sagt að hún mundi engum manni giftast meðan Kjartan væri á lífi en lét þó tilleiðast fyrir fortölur ættingja.

Sumarið eftir kom Kjartan heim og sá honum enginn bregða við þegar hann komst að því að Guðrún og Bolli væru gift. Nokkru síðar kvæntist hann sjálfur Hrefnu, systur Kálfs Ásgeirssonar vinar síns. Brátt urðu erjur á milli Kjartans annars vegar og Bolla og Guðrúnar hins vegar. Meðal annars fór Kjartan með flokk manna að Laugum í Sælingsdal, þar sem Bolli og Guðrún bjuggu, umkringdi bæinn og hleypti engum út í þrjá daga, svo að fólk komst ekki til útikamars en þurfti að gera sín stykki inni og þótti það hin mesta skömm.

Nokkru síðar frétti Guðrún að Kjartan væri á ferð í grenndinni og væri fáliðaður. Hún sagði bræðrum sínum og Bolla að fara að honum. Þeir vildu það ekki en hún ögraði þeim þá, kallaði bræður sína bændadætur og hótaði að skilja við Bolla. Þeir fóru þá. en þegar þeir fundu Kjartan sat Bolli hjá og börðust Ósvífurssynir lengi einir við hann. Þá spurði Kjartan Bolla af hverju hann hefði farið að heiman ef hann ætlaði að sitja hjá og Ósvífurssynir eggjuðu hann. Á endanum stóðst Bolli ekki eggjanirnar, spratt á fætur og vó Kjartan fóstbróður sinn með sverðinu Fótbít.

Gæsalappir

Lík Kjartans var fært heim í Tungu. Síðan reið Bolli heim til Lauga. Guðrún gekk í móti honum og spurði hversu framorðið væri. Bolli kvað þá vera nær nóni dags þess. Þá mælti Guðrún: „Misjöfn verða morgunverkin. Eg hefi spunnið tólf alna garn en þú hefir vegið Kjartan." Bolli svarar: „Þó mætti mér það óhapp seint úr hug ganga þótt þú minntir mig ekki á það." Guðrún mælti: „Ekki tel eg slíkt með óhöppum. Þótti mér sem þú hefðir meiri metorð þann vetur er Kjartan var í Noregi en nú er hann trað yður undir fótum þegar hann kom til Íslands. En eg tel það þó síðast er mér þykir mest vert að Hrefna mun eigi ganga hlæjandi að sænginni í kveld." Þá segir Bolli og var mjög reiður: „Ósýnt þykir mér að hún fölni meir við þessi tíðindi en þú og það grunar mig að þú brygðir þér minnur við þó að vér lægjum eftir á vígvellinum en Kjartan segði frá tíðindum." “

— Laxdæla saga.