Kirkjulén

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Kirkjulén, lénskirkja eða beneficium er kirkjustaður sem biskup hafði forræði yfir og veitti presti að léni. Fyrstu kirkjulénin eru frá lokum 12. aldar, frá tímum staðamála fyrri, en þeim fjölgaði mjög eftir sættargerðina í Ögvaldsnesi 1297, eftir staðamál síðari. Eftir það unnu biskupar stöðugt að því að fjölga kirkjulénum. Sjá einnig erkibiskupslén.

Prestar sem fengu kirkjulén, sátu á þeim eins og þau væru þeirra eign og nutu allra tekna og hlunninda. Þeir höfðu bæði forræði heimalands, auk annarra jarða og ítaka sem fylgdu. Mörg kirkjulén voru stórauðug og höfðu prestar sem sátu þau miklar tekjur af landskuldum og ítökum. Urðu prestarnir því oft auðugir og valdamiklir, en voru hins vegar háðir biskupi, sem hafði veitingarvaldið, og gat svipt þá kirkjuléninu. Ákveðnar reglur giltu um rekstur kirkjuléna, menn urðu að skila þeim í ekki lakara ástandi en þeir tóku við þeim. Einnig skyldi dánarbú presta greiða kirkjunni tíunda hluta þess er þeir höfð aflað meðan þeir sátu kirkjulénin.

Á 16. öld (eftir siðaskiptin) fór kirkjulén eða beneficium að merkja fast prestsetur, og hélst sú merking orðanna fram á 20. öld. Veitingarvaldið var þá að nokkru leyti í höndum veraldlegra valdsmanna konungs, enda hafði konungur við siðaskiptin, sölsað undir sig flestar eigur kirkjunnar hér á landi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Einar Laxness: Íslandssaga, i-r.