Kirkjubær (Rangárvöllum)
Kirkjubær á Rangárvöllum er stórbýli á miðjum Rangárvöllum alllangt ofan þjóðvegarins á vinstri hönd þegar ekið er frá Hellu til Hvolsvallar. Bærinn er fornfrægur og kemur mjög við sögu í Njálu, en á sögutíma hennar bjó þar Otkell sá sem Hallgerður langbrók lét þrælinn Melkólf ræna frá. Otkell vildi ekki taka neinum sáttaboðum Gunnars á Hlíðarenda og lét Skammkel á Hofi ráða öllu fyrir sig, en Skammkell gerði málin óleysanleg og kostaði það Gunnar lífið.
Í Kirkjubæ var kirkja, ekki er vitað um upphaf hennar né heldur um upphaf nafnsins, en þó er ljóst að bærinn hét Kirkjubær allöngu fyrir kristnitöku. Í Kirkjubæ hefur lengi verið tvíbýli og heita býlin Eystri- og Vestri-Kirkjubær. Í Eystri-Kirkjubæ var grafið fyrir húsi um 1930 og komu þá upp mannabein og gæti þar hafa verið kirkjugarður.
Meðfram túnjaðri Kirkjubæjar rennur Kirkjubæjarsíki, sem seinna skiptir um nafn og heitir þá Strandarsíki. Það rennur svo út í Eystri-Rangá skammt neðan við Djúpadal.