Keltnesk tungumál
Keltnesk tungumál eru grein af flokki indóevrópskra mála. Í fornöld voru þau töluð í allri Mið- og Vestur-Evrópu, en takmarkast nú við ákveðin svæði á Bretlandseyjum og á Bretaníuskaga í Frakklandi.
Flokkar keltneskra tungumála
[breyta | breyta frumkóða]Keltnesk tungumál skiptast í fjóra aðalflokka, og eru málin í öðrum og fjórða flokkinum útdauð:
- Bresk eða brýþonsk tungumál, þ.e. velska, bretónska, korníska, kumbríska og e.t.v. péttneska.
- Gallísk tungumál, þ.e. gallíska, lepontíska, noríska og galatíska. Töluð á svæði sem náði frá Frakklandi til Tyrklands, og frá Belgíu til Norður-Ítalíu.
- Gelísk tungumál, þ.e. írska, gelíska eða skosk gelíska, manska og shelta-mál.
- Kelt-íberísk tungumál, voru töluð á Íberíuskaga, einkum í Portúgal og vestan- og norðantil á Spáni.
P-keltnesk og Q-keltnesk mál
[breyta | breyta frumkóða]Þessum fjórum flokkum er venjulega skipt í tvær greinar, en málfræðingar nota tvær ólíkar aðferðir við það. Önnur þeirra skiptir málunum í P-keltnesk og Q-keltnesk mál. Sem dæmi má nefna að sonur er map í P-keltneskum málum, en mac (borið fram makk) í Q-keltneskum málum. Samkvæmt því eru gallísk og brýþonsk tungumál P-keltnesk, en gelísk og kelt-íberísk tungumál Q-keltnesk.
Meginlandsmál og eyjamál
[breyta | breyta frumkóða]Önnur aðferð er að skipta keltneskum tungumálum í meginlandsmál og eyjamál. Undir meginlandsmál falla gallísk og kelt-íberísk tungumál, og undir eyjamál gelísk og brýþonsk tungumál. Samkvæmt þessari skiptingu hefur þróunin frá Q yfir í P orðið fyrir tilviljun á tveimur aðskildum svæðum. Bent er á önnur sameiginleg einkenni í eyjamáli, svo sem beygingu forsetninga og orðaröð.
Samkvæmt þessari skilgreiningu er bretónska náskyld kornísku, og telst því eyjamál, þó að hún sé töluð á meginlandinu. Vitað er að á 5. og 6. öld flutti fólk frá Bretlandi til Bretaníuskaga, og er það væntanlega ástæðan fyrir þessum skyldleika málanna. Í bretónsku eru vissir þættir sem minna á meginlandsmál, og geta verið úr því máli sem var fyrir á svæðinu.
Samkvæmt ríkjandi tilgátum bárust keltnesku málin í tvem lotum til Bretlandseyja. Fyrst kom gelískan til Írlands um 400 fyrir krist og þaðan til Skotlands en nokkru síðar bríþonskan til suður Englands.
Finna má góð rök fyrir báðum aðferðunum við flokkun keltneskra mála. Þessi ágreiningur snertir ekki skiptingu hinna lifandi keltnesku mála í gelísk og brýþonsk mál, heldur snýst hann aðeins um þróunarsögu málanna.
Margt er óljóst um sum keltnesku tungumálin. Oft eru einu heimildirnar örfáar áletranir og frásagnir rómverskra sagnaritara.
Tilgátan um meginlandsmál / eyjamál
|
Tilgátan um P-keltnesk / Q-keltnesk tungumál
|
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Baldur Ragnarsson: Tungumál veraldar. Háskólaútgáfan, Rvík 1999.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Keltiske språk“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. desember 2008.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Celtic languages“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. desember 2008.