Kanínan
Kanínan er dægurlag sem Reynir Guðmundsson söngvari hljómsveitarinnar Ýr fann á snældu í sínum fórum með upptökum úr Radio Luxemburg. Það var með enskum texta en aldrei fundu þeir félagar út hið rétta nafn lagsins. Þeim heyrðist það vera „Rabbit Hey!“ og sungu það á ensku alla tíð þannig á böllum. Enski textinn var aldrei almennilega á hreinu og „bjó“ Reynir söngvari til það sem upp á vantaði.
Þegar hljómsveitin ákvað að taka upp hljómplötu árið 1975 fór hún til New York og var Jakob Magnússon tónlistarmaður, upptökustjóri. Í flugvélinni á leiðinni út var ákveðið að frumkvæði Jakobs að snúa flestum textum laganna á íslensku. Þannig breyttist titill lagsins úr „Rabbit Hey!“ í „Kanínan“, sem er óbein þýðing á upphafi enska textans eins og þeir héldu að hann væri. Við gerð íslenska textans voru ýmis atvik og sögur frá ferli hljómsveitarinnar rifjuð upp og línur úr þeim sögum settar þar inn. Íslenski textinn er uppfullur af tilvísunum í samband karls og konu, svo nákvæmum, að til að særa ekki blygðunarkennd fólks (þá sérstaklega Útvarpsráðs) er ein lína textans sungin afturábak. Hún er svona: „Ún liv gé réþ aðír, þó ég verði faðir“.
Lagið kom út rétt fyrir jól 1975 og varð mjög vinsælt. Reynir og Rafn eru skrifaðir fyrir íslenska textanum.
Sálin hans Jóns míns tók upp lagið síðar og enn hélt það vinsældum sínum.
Uppruni lagsins
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2011 auglýsti Dr. Gunni á bloggsíðu sinni eftir upplýsingum um erlenda lagið sem „Kanínan“ byggist á. Einn lesandi bloggsins sendi þá inn bréf þar sem kemur fram að lagið er í raun grískur poppsmellur „Ela Ela“ frá 1971 sem er í grunninn gamalt grískt þjóðlag. Útsetning lagsins er eftir Demis Visvikis og George Chatziathanassiou í grísku hljómsveitinni Axis. Lagið varð nokkuð vinsælt í Evrópu þegar það kom út. Útgáfan sem Reynir heyrði í Radio Luxemburg hefur að öllum líkindum verið í flutningi þýsku hljómsveitarinnar Les Humphries Singers frá 1973.