Kóngsmelur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kóngsmelur var heiti á landspildu á toppi Öskjuhlíðar í Reykjavík. Um er að ræða svæði sem rutt var fyrir hátíðarhöld Reykvíkinga vegna komu Kristjáns IX Danakonungs sumarið 1874 á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar. Sjálf hátíðarhöldin þóttu misheppnuð þar sem mikið moldrok gerði meðan á skemmtuninni stóð, auk þess sem tveir danskir sjóliðar slösuðust alvarlega þegar þeir ætluðu að skjóta af fallbyssu til heiðurs konungi.

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru reistir heitavatnstankar á Kóngsmel sem höfðu að geyma vatn sem Hitaveitan dældi ofan úr Mosfellssveit. Síðar voru geymar þessir rifnir og nýir reistir ásamt útsýnishúsinu Perlunni. Engar menjar finnast lengur um hátíðarsvæðið á Kóngsmel.