Jólnir
- Jólnir er líka eitt af heitum norræna guðsins Óðins.
Jólnir var eyja sem varð til í Surtseyjargosinu en hvarf aftur í hafið tíu mánuðum eftir að gos hófst þar.
Fyrst varð vart við gos í hafinu um 900 metra suðvestur af Surtsey 26. desember 1965 og þann 28. desember sást fyrst að ný eyja var að myndast. Henni var fljótt gefið nafnið Jólnir af því að gosið hófst á annan dag jóla.
Þann 3. janúar var eyjan orðin um 100 metrar á lengd og 50 metrar á breidd og þá gaus þar í tveimur gígum. Tveimur dögum síðar var eyjan horfin en hún sást aftur 14. janúar. Aftur hvarf hún í miklu óveðri í janúarlok en birtist í þriðja sinn viku síðar, hvarf enn og birtist svo enn á ný. Hún minnkaði og stækkaði á víxl og hvarf í fimmta sinn í apríl í nokkra daga. 25. júní mældist hún 568 m löng og um 55 m há en mældist mest 62 m. Í lok júlí dró mjög úr gosinu og því lauk 10. ágúst.
Eftir það minnkaði eyjan hratt og 20. september var ekki annað eftir en hvalbakur sem braut yfir á flóði. Síðan var þar rif eða sker smátíma en nokkrum mánuðum eftir goslok var það horfið og nú er þarna um 39 metra dýpi.