Fara í innihald

Jon Stewart

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jonathan Stuart Leibowitz)
Jon Stewart

Jon Stewart (fæddur Jonathan Stuart Leibowitz; 28. nóvember 1962) er grínisti, leikari og sjónvarpsþáttastjórnandi, þekktur sem þáttastjórnandi bandaríska háðsádeiluþáttarins The Daily Show.

Jon Stewart fæddist í New York-borg og ólst upp í New Jersey þar sem hann gekk í Lawrence High School, fjölskylda hans eru gyðingar. Síðar sótti hann nám í The College of William and Mary í Williamsburg í Virginíufylki. Í dag er hann giftur Tracey McShane og eiga þau tvö börn.

Stewart flutti til New York árið 1986 til þess að reyna fyrir sér í uppistandi. Ári síðar steig hann á svið í klúbbnum The Bitter End þar sem hann hóf feril sinn. Stewart tók við sem kynnir þáttarins The Daily Show á Comedy Central í upphafi árs 1999 en Stewart er einnig höfundur og meðframleiðandi þáttarins. Stewart hefur einnig leikið í grínmyndum á borð við Evan Almighty þar sem hann kemur fram sem hann sjálfur og verið gestaleikari í grínþáttum á borð við The Nanny, Spin City og American Dad. Hann hefur gefið út tvær bækur, Naked Pictures of Famous People árið 1998 og America (The Book): A Citizen´s Guide to Democracy Inaction árið 2004. Seinni bókin er skrifuð af rithöfundum The Daily Show og er háðsádeila á bandarískt stjórnskipulag þar sem stofnanir þess eru krufðar á kaldhæðinn hátt.

Pólitísk staða

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Stewart tók við sem þáttastjórnandi The Daily Show breytti hann áherslum þáttarins úr hversdagslegum umfjöllunum um frægt fólk yfir í hnitmiðaða pólitíska ádeilu. Hann bað starfsmenn sína um að skrifa út frá sínum eigin pólitísku sjónarmiðum og leyfa ástríðu um málefnin að koma fram á gamansaman hátt. Þeir kalla þáttinn plat fréttaþátt sem dragi helstu ádeilur sínar úr nýliðnum fréttum um stjórnmál og stjórnmálamenn ásamt gagnrýni á fjölmiðla.

Adam Clymer hefur haldið því fram að The Daily Show hygli demókrötum á kostnað repúblikana. Stewart segir ástæðu þess að repúblikanaflokkurinn virðist oftar eiga undir högg að sækja í þáttunum sé vegna þess hversu flokkurinn sé sterkur fyrir og álítur að þeir séu því betra skotmark, demókrataflokkurinn hafi veika stöðu til áhrifa í þjóðfélaginu, það skili því litlu að gagnrýna þá sem hafi lítil áhrif. The Daily Show hefur hins vegar styrkt demókratann Anthony Weiner til framboðs í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Þátturinn hefur verið gagnrýndur fyrir að gera ungt fólk sjálfumglatt og láta það fari á mis við háleitari markmið stjórnmálanna. Þessu er svarað með því að segja að aðal markmið þáttanna sé að skemmta fólki og fyrst og fremst eigi að líta á þáttinn sem grín.