Fara í innihald

John Bates Clark

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
John Bates Clark.

John Bates Clark (26. janúar, 1847 – 21. mars, 1938) var bandarískur hagfræðingur. John Clark var einn af frumkvöðlum jaðarbyltingarinnar og frumkvöðlum nýklassískrar hagfræði í Bandaríkjunum. Hann var lengst af prófessor við Columbia-háskóla. Clark var einn af stofnendum fyrstu heildarsamtaka bandarískra hagfræðinga, The American Economic Association árið 1885. Clark er einna þekktastur fyrir að hafa sett fram sjálfstæða kenningu um jaðarábata, án þess að hafa haft vitneskju um fyrri skrif annarra frumherja jaðarbyltingarinnar, William Stanley Jevons, Carl Menger og Léon Walras.

John Clark fæddist og ólst upp í Providence, Rhode Island. Hann hóf nám við Amherst College í Massachusetts og útskrifaðist þaðan 25 ára gamall. Frá árunum 1872 til 1875 stundaði hann nám í háskólanum Zürich og við háskólann í Heidelberg þar sem hann lærði hjá Karl Knies, sem var einn af leiðtogum hins þýska söguskóla. Eftir heimkomu úr námi kenndi Clark fyrst sem prófessor í hagfræði við Carleton College í Minnesota frá 1875 til 1881. Clark kenndi um skeið við Johns Hopkins háskóla en flutti sig árið 1895 til Columbia.

Meðal nemenda Clark við Carleton var Thorsten Veblen. Veblen og Clark áttu síðar eftir að takast hart á í akademískum deilum, en Clark var einn helsti skotspónn Veblen og annarra meðlima bandarískrar stofnanahagfræði.[1] Fyrstu árin efitir heimkomuna var Clark undir sterkum áhrifum af hugmyndum hagfræðinga hins þýska söguskóla, sem aðhylltust virk ríkisafskipti og véfengdu skilvirkni og réttlæti samkeppnismarkaða. Skrif hans voru því mjög gagnrýnin á kapítalisma og kapítalískt þjóðskipulag. Eftir komuna til Columbia snéri Clark við blaðinu og gerðist eindreginn talsmaður samkeppni og kapítalisma. Hann var einn af hörðustu gagnrýnendum bandaríska stofnanahagfræðiskólans.[2]

Framlög til hagfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Mikilvægasta rit Clark er The Philosophy of Wealth (1886), sem var í grunninn safnrit ritgerða og greina sem hann hafði skrifað að námi loknu. Í bókinni setti hann fram ítarlega kenningu um eðli auðs sem lagði áherslu á mikilvægi stofnana, sérstaklega laga og einkaeignarréttar. Mikilvægasta framlag ritsins var hins vegar frumútgáfa af hugmyndinni um jaðarábata og nyt, meginreglu sem hafði þá þegar verið sett fram af Jevons (1871), Menger (1871) og Walras (1878), sem hver um sig höfðu þróað kenninguna sjálfstætt og án vitneskju af skrifum hvors annars. Clark á því tilkall til að teljast einn af upphafsmönnum jaðarbyltingarinnar.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Arrow, Kenneth J. (1975-03). „Thorstein Veblen as an Economic Theorist“. The American Economist. 19 (1): 5–9. doi:10.1177/056943457501900101. ISSN 0569-4345.
  2. „John Bates Clark“. www.hetwebsite.net. Sótt 6. september 2022.
  3. C., LEONARD, Thomas. "A certain rude honesty": John Bates Clark as a pioneering neoclassical economist. OCLC 1192834360.