Jens Tómasson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jens Tómasson (22. september 192524. október 2012) var íslenskur jarðfræðingur. Jens fæddist í Hnífsdal en lést í Reykjavík. Foreldrar hans voru Tómas Tómasson sjómaður og verkamaður og kona hans Elísabet Elíasdóttir húsfreyja. Jens fluttist ungur með foreldrum sínum og systkinum til Reykjavíkur og ólst þar upp. Hann útskrifaðist úr MR 1948 og settist seinna í Óslóarháskóla. Þaðan lauk hann cand.mag-prófi árið 1962. Eftir það réðst hann til starfa hjá Raforkumálastjóra og síðan Orkustofnun þar sem hann vann allt til 1995 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Jens starfaði lengst af á sviði jarðhita og jarðborana og sérhæfði sig í rannsóknum á eiginleikum há- og lághitakerfa. Til þess notaði hann öll gögn sem fengust úr borholum svo sem borsvarf og upplýsingar um jarðlagaskipan, ummyndun bergs og vatnsæðar. Hann var deildarstjóri í borholujarðfræði á Orkustofnun frá 1979 og stýrði verkefnum sem unnin voru fyrir Hitaveitu Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu. Sú borholujarðfræði sem enn í dag er stunduð á Íslandi er í mörgu byggð á starfi hans. Eftir Jens liggur fjöldi greina og skýrsla um jarðhita og borholujarðfræði og töluvert er vitnað í þær í skrifum um þau fræði.

Jens var kvæntur Herborgu Húsgarð frá Syðri Götu í Færeyjum. [1]

Bróðir hans, Haukur Sigurður Tómasson, var einnig þekktur jarðfræðingur. Þeir bræður unnu báðir lengst af á Orkustofnun, Jens í jarðhitanum en Haukur í vatnsaflinu, og settu skýran svip á íslenskt jarðfræðasamfélag.

  1. Minningar, Morgunblaðið 1. nóv. 2012 bls. 32.