Jeannette Rankin
Jeannette Pickering Rankin (11. júní 1880 – 18. maí 1973) var bandarískur kvenréttindafrömuður og stjórnmálakona. Hún var fyrsta konan sem var kosin á fulltrúaþing Bandaríkjanna, sem fulltrúi Repúblikana í Montana árið 1916. Hún sat í eitt kjörtímabil en var svo aftur kosin á þing árið 1940. Sem þingkona lagði hún fram lagafrumvarp um ótakmarkaðan kosningarétt kvenna sem varð að lokum nítjándi viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna árið 1920.
Rankin var kjörin á þing í upphafi bæði fyrri heimsstyrjaldar og síðari heimsstyrjaldar. Hún var friðarsinni og kaus gegn stríðsyfirlýsingu Bandaríkjanna á hendur Þýskalandi 1917. Árið 1941 var hún eini þingmaðurinn sem kaus gegn stríðsyfirlýsingu á hendur Japan eftir árásina á Pearl Harbor.
Rankin var súffragetta á framsóknartímabilinu og barðist fyrir kvenréttindum í Montana, New York og Norður-Dakóta. Hún barðist líka fyrir fleiri borgararéttindum og tók þátt í að stofna samtökin American Civil Liberties Union árið 1920.