Jean-Bédel Bokassa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bokassa í opinberri heimsókn í Rúmeníu 1970

Jean-Bédel Bokassa (22. febrúar 19213. nóvember 1996), einnig þekktur sem Salah Eddine Ahmed Bokassa og Bokassa 1. keisari, var forseti Mið-Afríkulýðveldisins frá 1966 til 1976 og keisari yfir Mið-Afríkukeisaradæminu frá 1976 til 1979 þegar Frakkar steyptu honum af stóli. Stjórn hans einkenndist af kúgun og ofbeldi.

Hann komst til valda með því að steypa frænda sínum, David Dacko, af stóli og ríkti með stuðningi Frakka, einkum Valéry Giscard d'Estaing. Í staðinn fengu Frakkar úran sem var mikilvægt fyrir kjarnorkuáætlanir þeirra. Árið 1976 leysti hann stjórn landsins upp og lýsti yfir stofnun einveldis. Krýningarathöfnin sem fram fór árið 1977 kostaði um 20 milljónir dollara og gerði landið gjaldþrota. Frakkar sendu herlið til að taka þátt í athöfninni en enginn erlendur þjóðhöfðingi þáði boð um að vera viðstaddur. Í apríl árið 1979 mótmælti hópur námsmanna því að þurfa að kaupa dýra skólabúninga sem verksmiðja í eigu forsetans framleiddi. Í kjölfarið voru 180 námsmenn handteknir og 100 drepnir. Sagt var að Bokassa hefði sjálfur tekið þátt í að drepa fimm manns með barefli. Eftir þetta þvarr stuðningur Frakka. Franski herinn kom Dacko aftur til valda meðan Bokassa var í heimsókn í Líbýu í september þetta ár. Bokassa hélt þá í útlegð, fyrst til Abidjan og síðan til Parísar. Árið 1986 sneri hann aftur til Mið-Afríkulýðveldisins og var strax handtekinn. Hann var dæmdur til dauða fyrir fjölmargar sakir en dómnum var breytt í lífstíðarfangelsi. André Kolingba, þáverandi forseti, lýsti yfir almennri sakaruppgjöf árið 1993 og Bokassa var því látinn laus. Hann bjó í Mið-Afríkulýðveldinu til dauðadags.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.