Fara í innihald

Jakaból

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jakaból var heiti á æfingarhúsnæði reykvískra lyftingakappa um nokkurra ára skeið á ofanverðum áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda. Nafnið hefur síðar verið endurvakið sem heiti á lyftinga- og líkamsræktarstöðvum.

Lyftingamenn höfðu löngum verið á hrakhólum í Reykjavík, frá því að kerfisbundin iðkun íþróttarinnar hófst. Frá 1974 til 1976 höfðu kraftlyftingarmenn aðstöðu í Sænska frystihúsinu, sem var hálfónýtt atvinnuhúsnæði í miðborg Reykjavíkur. Eigendur hússins óttuðust að þung lóðin kynnu að valda enn frekari skemmdum á húsnæðinu og var lyftingamönnum að lokum úthýst.

Í kjölfarið beindu lyftingamenn sjónum sínum að yfirgefnu þvottahúsi í eigu Reykjavíkurborgar í Þvottalaugunum. Húsið var í rúst og þurfti að byggja upp nánast frá grunni. Starfsemin hlaut nafnið Jakaból og varð miðstöð kraftlyftingasambandsins næstu árin. Hugur lyftingamanna stóð þó til þess að eignast betri húsakynni, meðal annars með búningsaðstöðu fyrir bæði kyn. Voru miklar vonir bundnar við sérhannað lyftingahús sem byrjað var að reisa á félagssvæði Knattspyrnufélags Reykjavíkur við Frostaskjól árið 1982.[1] Þær framkvæmdir drógust þó á langinn og varð húsið aldrei sú lyftingamiðstöð sem til stóð. Árið 1984 var Jakabóli í Laugardalnum lokað. Var húsnæðið þá í mikilli niðurníðslu og hafði ítrekað orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum. Þar með voru kraftlyftingarmenn á hrakhólum á ný.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Þjóðviljinn 24.-25. mars 1984“.