Jack Kevorkian

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jacob „Jack“ Kevorkian

Jacob „Jack“ Kevorkian (26. maí 1928 – 3. juní 2011) var einn áhrifamesti baráttumaður líknardrápa í Bandaríkjunum. Hann var menntaður meinafræðingur og útskrifaðist úr Læknaskóla Michigan árið 1952.

Kevorkian var af armensku bergi brotin. Báðir foreldrar hans voru armenskir innflytjendur. Kevorkian varð heimsfrægur á tíunda áratugnum fyrir það að hafa hjálpað rúmlega 130 veikum einstaklingum að enda líf sitt frá árinu 1990 til ársins 1998. Honum var gefið viðurnefnið doktor dauði af bandarísku pressunni vegna þessa. Jack Kevorkian hafði ungur að árum mótað með sér þá skoðun að fólk sem væri að upplifa mikinn sársauka vegna veikinda ætti sjálft að geta ákveðið hvenær það myndi deyja.

Árið 1987 byrjaði hann að auglýsa ráðgjöf fyrir mjög veikt fólk sem væri að leitast eftir því að deyja. Það var ekki fyrr en árið 1990 sem hann hjálpaði sínum fyrsta sjúklingi að enda líf sitt. Það var kona að nafni Janet Adkins sem hafði verið greind með alzheimer árið 1989. Jack Kevorkian var ákærður fyrir morðið á Adkins en það voru þó engin lög í Michigan ríki á þessum tíma sem bönnuðu það að hjálpa manneskju að enda líf sitt og var því ákæran lögð niður seinna það sama ár.

Michigan-ríki svipti Kevorkian lækningaleyfi árið 1991 eftir að það hefði gefið honum skýr fyrirmæli um að hann gæti ekki haldið áfram að veita fólki þessa þjónustu.

Árið 1998 lét hann fréttaþáttinn 60 Minutes fá upptöku af því þegar hann sprautaði mann að nafni Thomas Youk með lyfjum sem enduðu líf hans. Kevorkian sprautaði hann sjálfur til þess að hann yrði ákærður. Hann trúði því að hann gæti farið með málið fyrir dóm og sýnt fram á að það sem hann væri að gera væri mannúðlegt en ekki morð.

Kevorkian ákvað að vera sinn eiginn verjandi í réttarhöldunum. Það virkaði ekki vel fyrir hann þar sem hann var ekki lærður í lögfræði og kunni því ekki setja fram mál sitt samkvæmt lögum. Dómsmálinu lauk með því að Jack Kevorkian var fundinn sekur og dæmdur í 10 til 25 ára fangelsisvist fyrir morð af annarri gráðu.

Kevorkian afplánaði rúmlega átta ár af dómi sínum, honum var veitt náðun vegna veikinda og hleypt út 1. júní árið 2007. Allt til dauðadags hélt hann áfram að berjast fyrir því að það væri réttur allra einstaklinga að geta ráðið örlögum sínum. Jack Kevorkian lést þann 3. júní árið 2011 eftir þrálát veikindi til margra ára, þá 83 ára gamall.

Tónlistarferill[breyta | breyta frumkóða]

Kevorkian var djasstónlistarmaður og tónskáld. Genf's Exit fól hljómsveitarstjóranum David Woodard árið 1999 að undirbúa orgel Kevorkian fyrir blásarasveit.[1]: 34–41 

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Woodard, D., „Musica lætitiæ comes medicina dolorum“, þýð. S. Zeitz, Der Freund, Nr. 7, mars 2006, bls. 34–41.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.