Fara í innihald

Jökull Ingimundarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jökull Ingimundarson var sonur Ingimundar gamla er nam land í Vatnsdal. Jökli var úthlutað land í hlíðum Tungumúla í Vatnsdal og byggði þar bæ sinn, Jökulsstaði. Tóftir Jökulstaða eru í landi Þórormstungu.

Jökli Ingimundarsyni er lýst að hann hafi verið allmikilfenglegur með hvassar sjónir, eigi margra maki og mikill kappi og afreksmaður að vexti og afli. Hann var fálátur, ómjúkur og ódæll, harðúðigur og hraustur um allt, en gat trauðla hamið skap sitt. Ekki var hann skapdeildarmaður en tryggur vinur og gekk á undan í öllum deilum þeirra bræðra. Jökull hlaut sverðið Ættartanga við arfskipti eftir Ingimund gamla.

Í Vatnsdæla sögu er sagt frá því að þegar Eyvindur sörkvir frétti að Hrolleifur hinn mikli hefði banað Ingimundi hafi hann fyrirfarið sér með því að láta fallast á sax sitt. Synir Eyvindar voru þeir Hermundur og Hrómundur halti, sem örkumlaðist þegar Jökull Ingimundarson hjó á fót honum.