Fara í innihald

Jón Rögnvaldsson (garðyrkjumaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stytta af Jóni í Lystigarðinum.

Jón Rögnvaldsson (1895-1972) var íslenskur garðyrkjumaður.

Búseta og fjölskylduhagir[breyta | breyta frumkóða]

Jón Rögnvaldsson var fæddur í Grjótárgerði í Fnjóskadal árið 1895. Hann fluttist átta ára gamall að Fífilgerði í Öngulsstaðahreppi og bjó þar lengst af ævinnar. Var hann jafnan kenndur við bæinn. Jón var kvæntur Körlu Þorsteinsdóttur og áttu þau fjögur börn. Hann fluttist til Akureyrar árið 1957 og lést þar árið 1972.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1910 fór Jón á garðyrkjunámskeið í Gróðrarstöðinni á Akureyri. Jón lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar árið 1917 og var þar lærisveinn Stefáns Stefánssonar grasafræðings. Jón hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík árið 1918 en veiktist af spönsku veikinni og hætti námi. Árið 1920 fór Jón til Kanada og dvaldist þar í fimm ár. Þar vann hann ýmis störf, meðal annars við skógræktarstöðina Indian Head í Manitoba og lauk garðyrkjuprófi frá landbúnaðarskólanum í Winnipeg.

Garðyrkjustöðin Flóra[breyta | breyta frumkóða]

Heimkominn 1925 rak Jón garðyrkjustöð, fyrst heima í Fífilgerði en síðar lengst af við Brekkugötu 7 á Akureyri. Garðyrkjustöðin nefndist Flóra og hana rak Jón ásamt Kristjáni bróður sínum.

Frumkvöðlastörf[breyta | breyta frumkóða]

Jón var eldheitur hugsjónarmaður, frumherji í skógrækt, garðyrkju, grasafræði og landslagsarkitektúr. Á öllum þessum sviðum gustaði af Jóni og kom hann að stofnum margra skógarreita. Jón var hvatamaður að stofnun fyrsta skógræktarfélags á Íslandi, Skógræktarfélagi Eyfirðinga og var fyrsti formaður félagsins. Hann var lengi garðyrkjuráðunautur Akureyrarkaupstaðar og forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri frá 1954 til 1970. Kom hann þar á fót fyrsta grasagarði á Íslandi og þeim nyrsta í Evrópu. Áður hafði Jón komið upp plöntusafni heima hjá sér sem varð grunnur grasagarðsins.

Jón gerði árið 1959 uppdrátt af skjólbeltaneti í Kaupangssveit. Tveimur árum síðar kynnti Jón skjólbeltaáætlun sína og hvatti menn til dáða. Er hér sennilega um að ræða fyrstu skjólbeltaáætlun sem gerð hefur verið á Íslandi.

Jón stóð að stofnun margra skógarreita Skógræktarfélags Eyfirðinga og skipulagi annarra reita s.s. reitsins við Freyjulund, við Kristneshæli, og Húsmæðraskólann á Laugalandi. Árið 1937 gaf hann út bókina Skrúðgarðar sem í áratugi var eina íslenska handbókin um þetta efni.

Jón var heiðursfélagi í Garðyrkjufélagi Íslands, og Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Hann var sæmdur fálkaorðunni árið 1963. Samkvæmt tillögu Skógræktarfélagsins var Arboretum Akureyri stofnað í Bæjarbrekkunum á Akureyri með hátíðlegri athöfn í Gróðrarstöðinni 18. júní 1983 á afmælisdegi Jóns og honum til heiðurs. Reist var brjóstmynd af Jóni í Lystigarðinum á 100 ára ártíð hans og tók Skógræktarfélagið þátt í því.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Ásýnd Eyjafjarðar - Skógar að fornu og nýju - Útgáfuár 2000 - Útgefin af Skógræktarfélagi Eyfirðinga.