Fara í innihald

Jón Ólafsson (varalögmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Ólafsson (172920. janúar 1778) var íslenskur lögfræðingur sem var varalögmaður (vísilögmaður), fyrst sunnan og austan en síðan norðan og vestan.

Jón var fæddur á Eyri í Seyðisfirði, sonur Ólafs Jónssonar lögsagnara þar og konu hans Guðrúnar Árnadóttur. Hún var dóttir Árna Jónssonar prests í Saurbæjarþingum, sem missti prestsskap 1723 fyrir drykkjuskap og illyrði á jólanótt. Jón varð stúdent úr Skálholtsskóla 1748 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1756. Þann 10. mars 1758 var hann skipaður varalögmaður Björns Markússonar, lögmanns sunnan og austan,

Með konungsbréfi frá 16. maí 1760 var Jóni boðið að semja frumvarp til nýrrar íslenskrar lögbókar og átti Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum að vera honum innan handar. Jón hafði búið í Miðhúsum í Reykhólasveit en fluttist í Húnavatnssýslu til að vera nær Bjarna og dvaldi hjá honum á Þingeyrum fyrst í stað. Hann giftist svo Þorbjörgu, dóttur Bjarna, og settust þau að í Víðidalstungu. Jón var þó áfram varalögmaður sunnan og austan til 1767 en þá fékk hann sig færðan í umdæmið þar sem hann bjó sjálfur og varð varalögmaður Sveins Sölvasonar, lögmanns norðan og vestan. Því embætti gegndi hann til dauðadags og vann jafnframt að samningu lögbókarinnar, sem hann lauk þó ekki.

Jón og Þorbjörg áttu aðeins eina dóttur, Hólmfríði, konu séra Friðriks Þórarinssonar á Breiðabólstað í Vesturhópi, bróður Stefáns amtmanns. Eftir lát Bjarna urðu miklar deilur milli erfingjanna um arf eftir hann og önnur mál og meðal annars lagði Jón bann við því að Halldór mágur hans og afkomendur hans mættu nota ættarnafnið Vídalín þar sem það tilheyrði þeim einum sem byggju í Víðidalstungu. Halldór tók þó ekkert mark á banninu.

Jón er sagður hafa verið mikill skapmaður og ofsafenginn en fékk þó fremur gott orð meðal almennings. Þó var hann sagður fjölkunnugur og var sagt að ef hann fékk ekki það sem hann vildi gæti hann náð því með því að senda mönnum draug eða gera þeim galdraveður.

  • „Candidati juris. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 3. árgangur 1882“.
  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • „Sagnagrunnur: Jón Ólafsson vísilögmaður. Skoðað 27. mars 2011“.