Fara í innihald

Ingibjörg Stein Bjarnason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ingibjörg Stein Bjarnason (9. febrúar 19011977) var íslensk-þýsk myndlistarkona og snyrtifræðingur, dóttir íslenska málfræðingsins Þorleifs H. Bjarnason og þýska norrænufræðingsins dr. Adeline Rittershaus. Ingibjörg var nefnd eftir frænku sinni Ingibjörgu H. Bjarnason. Adeline og Þorleifur skildu skömmu eftir fæðingu Ingibjargar og hún ólst upp hjá móðurfjölskyldu sinni í Þýskalandi en var alla tíð íslenskur ríkisborgari.

Ingibjörg giftist manni að nafni Stein og tók upp eftirnafn hans. Hún fékk berkla og var á heilsuhæli í Sviss þegar hann skildi við hana. Árið 1927 eignaðist hún dótturina Veru Zilzer með listamanninum Gyula Zilzer sem hún kynntist á heilsuhælinu. Hún fluttist til Parísar þar sem hún var virk í myndlistarhópnum Cercle et carré og átti í ástarsambandi við myndlistarmanninn Michel Seuphor. Aðrir meðlimir hópsins voru meðal annars Piet Mondrian, Friedrich Vordemberge-Gildewart, Joaquin Torres-García, Franciska Clausen, Alfred Roth, Le Corbusier og Walter Gropius. Hópurinn stóð fyrir frægri myndlistarsýningu í Galérie 23 í París í apríl 1930 þar sem Ingibjörg sýndi þrjú verk. Ingibjörg lærði snyrtifræði hjá Helenu Rubinstein í París. Þegar upp úr sambandi þeirra Seuphors slitnaði flutti hún til Þýskalands og síðan til Íslands þar sem hún stofnaði snyrtivörulínuna Vera Similion. Seinna flutti hún til Bandaríkjanna og síðan til Buenos Aires þar sem hún lést 1978.

Málverk Ingibjargar hafa öll týnst þar sem Michel Seuphor eyðilagði þau sem hún skildi eftir hjá honum og önnur glötuðust í innbroti á heimili hennar í Buenos Aires. Sænski listfræðingurinn Ulf Thomas Moberg fékk Seuphor til að endurgera verkin þrjú sem Ingibjörg sýndi á sýningunni 1930 árið 1994. Til er ljósmynd af tveimur verkanna á sýningunni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.