Illska
Illska er hugtak sem hefur gríðarlega víðtæka merkingu og nær ótútskýranlegt vegna afstæðs skilnings á hvað hægt sé að skilgreina sem illsku. Ólíkir mannhópar, menningarheimar og trúarbrögð geta skilgreint illsku á ólíkan hátt. En þó er hægt að fullyrða að einn allsherjar almennur skilningur sé til hjá flestum mannhópum jarðar á að illska sé fjarvera samkenndar. Illsku hefur verið lýst sem andstæðu góðs eða góðmennsku þ.e. kærleika, samkenndar og ástar. En illsku er einnig lýst sem öfgakenndu formi sjálfselsku eða sjálfhverfu. Í sumum trúarbrögðum, einkum austrænum, er illska einfaldlega séð sem öfgakennt form fávísi, þekkingarleysis eða heimsku.
Ólíkur skilningur er á illsku eftir ólíkum menningarheimum og fer það oftast eftir trúarlegri heimsýn, þá hvort um siðferðislega tvíhyggju sé að ræða: þar sem hið góða er allsherjar (Guð) og heyir baráttu við að útrýma hinu illa (Satan) sem er einnig allsherjar sbr. kristni, gyðingdóm og íslam, eða hvort um nátúralíska heildarhyggju sé að ræða: þar sem hið góða (ljós og regla) og illt (myrkur og óregla) eru séð sem tvær hliðar á sama guðdómlega veruleikanum sbr. hindúisma, forngríska trúarbragða og norræna goðafræði. Svo hið guðlega fyrir hinum fyrrnefnda væri algjörlega gott og sýnir aldrei grimmd, en hið guðlega fyrir þeim síðarnefndu er bæði gott og illt, og sýnir grimmd eða kærleika til skiptis til að viðhalda jafnvægi á milli reglu og óreglu.