Fara í innihald

Jakob Hafstein - Söngur villiandarinnar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá IM 52)
Jakob Hafstein syngur Söng villiandarinnar
Bakhlið
IM 52
FlytjandiJakob Hafstein, Carl Billich
Gefin út1954
StefnaSönglög
ÚtgefandiÍslenzkir tónar

Jakob Hafstein syngur Söng villiandarinnar er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Jakob Hafstein tvö lög við undirleik Carl Billich. Annað lagið, Fyrir sunnan Fríkirkjuna, samdi Jakob við ljóð Tómasar Guðmundssonar en hitt lagið er Söngur villiandarinnar sem varð eitt þekktasta lag á Íslandi á sjötta áratug síðustu aldar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló.

  1. Fyrir sunnan Fríkirkjuna - Lag - texti: Jakob Hafstein - Tómas Guðmundsson - Hljóðdæmi
  2. Söngur villiandarinnar - Lag - texti: Þjóðlag - Jakob Hafstein - Hljóðdæmi


Söngur villiandarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Lagið Söngur villiandarinnar eða Vildandens sång eins og það hét upprunalega er eftir ókunnan höfund, en sænski hljómsveitarstjórinn Leonard Landgren skrifaði það upp og útsetti. Eiginkona hans Thory Bernhards söng sænsku útgáfuna 1952. Í Danmörku söng Valdemar Davids danska þýðingu með Elo Magnussen og hljómsveit sama ár. Upprunalegur sænskur texti er eignaður Jóhan Bernhard Gauffin en dönsku þýðinguna gerði Knud Pheiffer. Eins og kunnugt er gerði Jakob Hafstein afar vel heppnaða þýðingu og staðfæringu af textanum auk þess sem hann fór sérlega vel með lagið.

Lagið varð vinsælt á Norðurlöndunum en sló rækilega í gegn á Íslandi þegar það kom út haustið 1954. Platan er ein mest selda plata Íslenzkra tóna.[1] Óhætt er að segja að hvert mannsbarn hafi þekkt hið ljúfsára ljóð sem er ógleymanlegt þeim sem á hlýða. Lagið var spilað í óskalagaþáttum útvarps árum saman eftir útkomu plötunnar og virðist enn lifa með þjóðinni þó það heyrist sjaldan í útvarpi á nýrri öld. Heiti lagsins varð titill útvarpsþáttar um lög frá liðinni tíð á Rás 2 og heiti á smásagnasafni Einars Kárasonar sem gefið var út 1987. Í samnefndri smásögu kom lagið sjálft við sögu á eftirminnilegan hátt.[2]

Fáir hafa reynt að endurgera lagið, hugsanlega vegna þess hve vel það er flutt af Jakobi og hve ljóðið er tilfinningahlaðið. Rúnar Júlíusson söng lagið reyndar inn á plötuna Nostalgíu sem gefin var út af Geimsteini 2006.

Jakob Hafstein gaf út fallegt nótnahefti með laginu árið 1956. Carl Billich skrifaði nóturnar en teikningar eru eftir Halldór Pétursson. Harmrænar teikningar Halldórs auka enn á þá átakanlegu atburðarrás sem lýst er í ljóðinu.

Nótnabókin

[breyta | breyta frumkóða]


  1. 4. sending af plötunni var auglýst í Morgunblaðinu, 20.2.1955, bls. 11.
  2. Einar Kárason. Söngur villiandarinnar og fleiri sögur. Mál og menning 1987.