Fjörusverta
Fjörusverta | ||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||||
| ||||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||||
Hydropunctaria maura (Wahlenb.) C. Keller, Gueidan & Thüs, 2009 |
Fjörusverta (fræðiheiti: Hydropunctaria maura) er flétta af fjörusvertuætt. Hún er ein algengasta flétta Íslands. Vaxtarskilyrði hennar er mikill raki en hún þrífst samt ekki undir vatnsyfirborði, því vex hún mest í fjörum og þá helst í þang- og klapparfjörum og myndar oft áberandi svart belti á klöppum rétt fyrir ofan mörk stórstraumsflóðs. Þar sem klappir eru sprungnar vex hún líka stundum upp fyrir megin svæði sitt eftir sprungum þar sem raki helst, sem gerir henni kleift að lifa svo hátt og myndar hún þá svartar rákir upp eftir sprungunum.
Útlit
[breyta | breyta frumkóða]Fjörusvertan myndar örþunnt, fremur slétt, smásprungið kolsvart þal þar sem þalreitirnir eru 0,2-0,6 millimetrar[1]. Askhirslan eru af pyttlugerð og þrengir stútur þeirra sér oft upp fyrir yfirborðið svo sjá má örlitlar bólur á yfirborði hennar eftir þá. Átta egglaga gró eru í hverri askhirslu þar sem hvert gró er um 7-8,5 μm breitt og 11-15 μm langt.[1]
Fjörusvertubeltið
[breyta | breyta frumkóða]Efsta beltið í beltaflokkun fjara er kallað eftir fjörusvertunni, fjörusvertubelti. Fáar fjörulífverur þrífast á fjörusvertubeltinu, sem er ofan við þangbeltin í fjörunni. Einna helst er það klettadoppa sem stundum er þar í talsverðu mæli og innan um fjörusvertuna og ofar á klöppum vex stundum einnig önnur fléttutegund, fjörukregða (Lichina confinis).
Breytt flokkun
[breyta | breyta frumkóða]Nýjar rannsóknir sem stuðst hafa við sameindafræðilegar aðferðir hafa breytt flokkun flétta af fjörusvertuætt í sveppakerfinu og tilheyra þær nú flokknum Eurotiomycetes. Á ráðstefnu um fjörusvertuættina á Akureyri 2007 var svertuætt rannsökuð af alþjóðlegu teymi vísindamanna og í framhaldinu birt grein þar sem tveim nýjum ættkvíslum, Hydropunctaria og Wahlenbergiella, var lýst innan ættarinnar. Báðar vaxa í vætu, ýmist við ferskvatn eða sjó. Hydropunctaria inniheldur margar tegundir sem vaxa við ferskvatn auk algengustu tegund ættarinnar, fjörusvertu, sem vex í fjörum. Við þessa nýju ættkvíslaflokkun breyttist eldri greining fjörusvertunar og við það var latnesku heiti fléttunnar breytt úr Verrucaria maura í Hydropunctaria maura. [2][3][4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Hörður Kristinsson (2016). Íslenskar fléttur. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. ISBN 978-9979-66-347-8
- ↑ „Íslenskar fjörufléttur af svertuætt“. Náttúrufræðistofnun Íslands. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. maí 2011. Sótt 5. apríl, 2012.
- ↑ „Ráðstefna um fléttur af fjörusvertuætt“. Náttúrufræðistofnun Íslands. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. maí 2013. Sótt 5. apríl, 2012.
- ↑ „Íslenskar fjörusvertur, þróunarsaga og flokkunarfræði - verkefnislok“. Rannsóknasjóður-Ranís. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. mars 2012. Sótt 6. apríl, 2012.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Agnar Ingólfsson (1990). Íslenskar fjörur.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Náttúrufræðistofnun Íslands Geymt 26 maí 2011 í Wayback Machine Íslenskar fjörufléttur af svertuætt (skoðað 1.04.2112)
- Náttúrufræðistofnun Íslands Geymt 20 maí 2013 í Wayback Machine Ráðstefna um fléttur af fjörusvertuætt (skoðað 1.04.2112)