Fara í innihald

Hverfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hverfi er ákveðinn hluti byggðar, ýmist í dreifbýli eða þéttbýli. Orðið hefur verið notað frá fornu fari í íslensku um sveitir og sveitarhluta (Kelduhverfi, Fljótshverfi, Reynishverfi, Rangárhverfi) eða þyrpingar þar sem nokkrir bæir standa þétt, oft hjáleigur kringum höfuðból, eins og til dæmis gildir um Miðneshrepp sem myndaður er af sjö hverfum, talin að sunnan: Stafneshverfi, Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi, Bæjarskershverfi, Sandgerðishverfi, Flankastaðahverfi og Kirkjubólshverfi. Stundum standa bæirnir svo þétt að byggðin er eins og svolítið þorp.

Orðið „hverfi“ er dregið af orðinu „umhverfi“, sem kemur fyrir í íslenskum fornritum á forminu „umhverfis“. Í forn-ensku er til samsvarandi orð „ymb-hweorfan“, í merkingunni „í nánasta umhverfi“.

Hverfi í þéttbýli er afmarkað svæði innan byggðarinnar. Slíkt hverfi hefur oft einhver sérkenni, stundum eru húsin öll af svipaðri stærð eða gerð. Algengt er að götur séu nefndar svipuðum nöfnum sem ef til vill hafa öll sömu endingu og dregur hverfið þá oft nafn af því (Fellahverfi, Salahverfi). Í öðrum tilvikum er hverfið kennt við ákveðið kennileiti (Fossvogshverfi), hús eða bæ sem stóð þar þegar hverfið fór að byggjast (Skuggahverfi, Grímsstaðaholt) eða sérkenni byggðarinnar (Smáíbúðahverfi).

Í nútímaskipulagi íbúðarhverfa eru þau oft afmörkuð þannig að þau tengjast aðalgötu með safngötu og er þar með ekki hægt að keyra í gegnum hverfin. Þetta er til þess að sporna við mikill umferð og draga úr slysahættu.