Hvanndalsbræður
Þessi grein inniheldur engar heimildir. Vinsamlegast hjálpaðu til við að bæta þessa grein með því að bæta við tilvísunum í áreiðanlegar heimildir. Efni sem ekki styðst við heimildir gæti verið fjarlægt. |
Hvannadalsbræður | |
---|---|
Upplýsingar | |
Uppruni | Akureyri |
Ár | 2002-núverandi |
Stefnur | Popp |
Meðlimir | Sumarliði, Valur, Pétur, Valmar, Arnar og Gunnar |
Hvanndalsbræður er hljómsveit sem var stofnuð árið 2002 af þeim Rögnvaldi Braga Rögnvaldssyni, Val Frey Halldórssyni og Sumarliða Helgasyni. Hugmyndina fengu þeir við drykkju í Hafnarstræti 107b, húsi sem stendur í Skátagilinu á Akureyri.
Aldrei stóð til að spila mikið opinberlega né ætlast til þess að aðrir hefðu ánægju af því að hlusta á tónlistina. Til að ganga úr skugga um að þetta plan héldist var valið versta nafnið af nokkrum á hljómsveitinni „Hvanndalsbræður“ og hljómsveitabúningar yrðu lopapeysur og flókahattar. Svo skyldi sungið um sveitina í þjóðlagapönkstíl.
Eftir æfingar var haldið til Suðureyrar við Súgandafjörð til að taka upp plötuna „Út úr kú“. Það var Vernharður Jósefsson sem hljóðritaði en hann hafði m.a. getið sér gott orð sem meðlimur „Geirfuglanna“. Helstu lög af plötunni voru „Svarfdælskir bændur“, „Frostaveturinn mikli“ og endurútgáfa af „Maístjörnunni“, annars var þar mest að finna áður útgefin þjóðlög í galgopalegum stíl.
Platan kom út 2003 og var gefin út í 500 eintökum sem öll seldust upp. Ekki var haft mikið fyrir upptökunum. Platan að mestu tekin upp og hljóðblönduð á einni helgi.
Sum þessara laga fengu mikla spilun á Rás 2 en þar voru helstu bandamenn hljómsveitarinnar dagskrárgerðarmennirnir Guðni Már Henningsson og Freyr Eyjólfsson.
Árið 2004 var farið að safnast meira í sarpinn og því haldið enn á ný í hljóðver. Var sú plata tekin upp á Akureyri í samvinnu við Kristján Edelstein gítaraleikara hljómsveitarinnar Start sem sá um upptökur. Meira var um frumsamið efni á þessari plötu og má þar nefna lög eins og „Upp í sveit“, „Kisuklessa“ og „Kínalagið“. Platan var gefin út í 500 eintökum sem öll seldust upp. Heldur var vandað meira til vinnu hér en upptökuferlið tók allt að því heila viku sem meðlimum þótti alltof langur tími
Þegar þarna er komið við sögu er hljómsveitin farin að spila á skemmtunum hér og þar um landið. Tónleikastaðurinn Græni Hatturinn var farin að móta sig sem heimavöllur bandsins. Helstu tónleikavígi voru Akureyri, Skagafjörður og Austfirðir. Fyrir kom að hljómsveitin héldi tónleika þrjú kvöld í röð fyrir fullu húsi þar á bæ.
Árið 2006 er farið aftur í hljóðver. Þriðja plata hljómsveitarinnar var tekin upp í æfingarhúsnæðinu á upptökuvél sem bræðurnir höfðu fjárfest í úr Tónabúðinni. Sá Sumarliði Helgason um upptökur og hljóðblöndun var í höndum Jóns Skugga. Platan fékk nafnið „Ríða feitum hesti“ og var gefin út í 500 eintökum sem öll seldust upp. Helstu lög voru „Halli Skúla“ og endurúgáfa af „Nínu og Geira (28 árum síðar)“. Þegar hér er komið við sögu voru meðlimir farnir að fá til liðs við sig „session“ leikara til að fylla upp í helstu eyður á tónleikum. Þar var Pétur Steinar Hallgrímsson á hin ýmsu strengjahljóðfæri og Kristinn Ingi Pétursson á hljómborð/píanó.
Á þessum tíma var allt efni sem hljómsveitin hafði gefið út var löngu uppselt enda gefið út í afar takmörkuðu upplagi. Eftirspurn eftir diskum var hinsvegar mjög mikil og útgáfurisinn Sena stökk á tækifærið um að gefa út „Best of“ disk með hljómsveitinni sem náði þó aðeins að heita „Skást of“. Var þar um að ræða samansafn laga af fyrri þremur diskum hljómsveitarinnar. „Skást of“ kemur út árið 2007 og seldist vel.
Breytingar voru á hljómsveitinni árið 2007 þegar sveitin hélt fund. Boðaðir til fundarins voru þeir Pétur Steinar Hallgrímsson og Valmar Valduri Valjaots en sá hafði komið til Íslands frá Eistlandi til að kenna tónlist nokkrum árum áður. Pétur hafði þegar leikið með bandinu um hríð sem „session“ spilari. Komu þeir því til liðs við hljómsveitina árið 2007 og voru afhjúpaðir á tónleikum á Græna Hattinum. Á þessum tíma var Gunnar Sigurbjörnsson hljóðmeistari einnig farin að starfa með hljómsveitinni og hefur verið alla tíð síðan.
Í þessari uppsetningu hélt hljómsveitin enn á ný í hljóðver til að taka upp sína fimmtu plötu. Var sú plata tekin upp á Akureyri af Vestur Íslendingnum Kyle Gudmundsson. Platan „Knúsumstumstund“ kom út árið 2008 í 500 eintökum og seldist upp. Helstu lög af plötunni eru „Heimilisofbeldi“, “Knúsumstumstund“, „Jafnréttisbaráttan“ og „Frostavetinn Mikli“ fékk að fljóta með aftur þar sem það lag þótti ekki fullnýtt. Þarna eru komin inn hljóðfæri eins og fiðla, harmonikka, mandolín og rafgítar sem ekki höfðu áður heyrst á plötum sveitarinnar og komu með þeim Pétri og Valmari.
Árið 2009 tekur Rögnvaldur Bragi þá óvæntu ákvörðun að segja skilið við hljómsveitina en hann hafði verið þeirra helsti framsögumaður á tónleikum og því heldur betur skarð hoggið í hópinn.
Sumarliði, Valur, Pétur og Valmar ákváðu þó að halda hópnum áfram en breyta nú heldur um stefnu og fara út í öllu léttara poppmeti. Enda hafði Rögnvaldur verið drifkraftur í beittum rokk útfærslum hljómsveitarinnar ásamt því að vera þeirra helsti sögumaður. Hljómsveitin gefur út „LALA Lagið“ vorið 2009 og fer lagið á topp allra vinældalista landsins og verða vinsældir mjög miklar um þetta leiti, en á allt öðrum vígstöðum þar sem hljómsveitin fer nú að keyra meira á dansleikjahald og verður þar ein sú vinsælasta á þeim markaði. Hljómsveitin var mikið að gefa út „Singles“ fyrir útvarp og koma um þetta leiti fram lög eins og „Vinsæll“, „Vinkona“, „Fjóla“ og fl. sem saman renna svo í hljómplötuna „Hvanndalsbræður“ sem kom út árið 2010 og endurnýjar þá bandið kynni sín við útgáfufyrirtækið Senu. Um þetta leiti vann upptökumaðurinn Baldvin AB Aalen mikið með hljómsveitinni við upptökur og hljóðblöndun.
Þetta sama ár, 2010 sendir Sumarliði inn lag eftir Rögnvald í undankeppni Eurovision, algjörlega í hans óþökk. Lagi kemst inn í keppnina og lætur Rögnvaldur til leiðast og sameinast strákunum á ný í þessu verkefni. Lagið var „Gleði og glens“ og endaði í þriðja sæti keppinnar.
Á þessum árum 2010 til 2014 er hljómsveitin ein sú allra vinsælasta á landinu og spilar á öllum helstu hátíðum sem haldnar eru ásamt því að eiga alltaf lög á topp listum útvarpstöðvanna. Um þetta leiti gengur til liðs við hljómsveitina Arnar Tryggvason sem leikur á hljómborð.
Árið 2013 hættir svo Valur Freyr tímabundið í hljómsveitinni til að huga að andlegum málefnum og öðrum störfum en kemur þá Akureyringurinn Haukur Pálmason inn sem trymbill um hríð og er þá hljómsveitin skipuð Sumarliða, Pétri, Arnari og Hauki.
Síðla árs 2014 þótti mönnum bandið vera komið langt frá því sem upphaflega var lagt upp með. Var því ráðgert að þeir Sumarliði, Valur og Rögnvaldur sóttu þrír á miðin um stund á ný. Gáfu þeir félagar út hljómplötuna „Klappa Ketti“ árið 2015 í 500 eintökum og seldust um 11 eintök. Upptökumaður var Haukur Pálmason og hljóðblöndun í höndum Axels Árnasonar. Aðstoðargítarleikari á plötunni var Magni nokkur Ásgeirsson.
Spilaði bandið nokkur „gigg“ undir þessum merkjum en fór svo fljótlega að leiðast þófið aftur. Voru því kallaðir inn þeir Pétur, Valmar og Arnar á ný.
Hljómsveitin endurgerði hið vinsæla Ingimars Eydal lag „María Ísabel“ árið 2016 sem varð geysivinsælt og mikið spilað.
Árið 2020 gekk yfir heiminn Covid-19 sjúkdómurinn sem setti allt tónleikahald á frost og ekki um annað að ræða en að halda inn í æfingarhúsnæði og semja nýtt efni. Úr varð hljómplatan "Hraundrangi" sem tekin var upp í Hveragerði af Bassa Ólafssyni sem einnig hljóðblandaði. Vinsælast þar var líklega lagið "X" sem fékk fína spilun. Platan kom út á Vinyl en einnig á streymisveitum.
Hljómsveitin er í dag starfandi og spilar „nokkra“ tónleika á ári ásamt því að taka eitt og eitt dansiball þegar vel liggur við. Skipun bandsins í dag er Sumarliði, Valur, Pétur Steinar, Valmar, Arnar og Gunnar Sigurbjörnsson.
Meðlimir
[breyta | breyta frumkóða]- Sumarliði Helgason - bassi, söngur
- Valur Freyr Halldórsson - trommur, söngur
- Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson - gítar, söngur (2002-2009) (2014-2023)
- Gunnar Sigurbjörnsson - hljóðmeistari (frá 2007)
- Pétur Steinar Hallgrímsson - rafgítar, mandolín (frá 2007)
- Valmar Valjaots - fiðla, harmonikka (frá 2007)
- Arnar Tryggvason - hljómborð (frá 2011)
- Haukur Pálmason - trommur (2014-2015)
Útgefið efni
[breyta | breyta frumkóða]Breiðskífur
[breyta | breyta frumkóða]- Út úr kú (2003)
- Hrútleiðinlegir (2004)
- Ríða feitum hesti (2006)
- Skást of (2007)
- Knúsumst um stund (2008)
- Hvanndalsbræður (2010)
- Klappa Ketti (2015)
- Hraundrangi (2020)