Fara í innihald

Hráolía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hráolíutunnur.

Hráolía eða jarðolía, stundum óformlega kölluð svartagull, er þykkur dökkbrún- eða grænleitur vökvi sem finnst víða í efri jarðlögum jarðskorpunnar. Hún inniheldur flókna blöndu kolvetna, oft alkana, alkena, hringalkana eða arómatísk efnasambönd, en útlit, samsetning og hreinleiki er mjög misjafn. Almennt er litið svo á að hráolía myndist við það að rotnaðar plöntu- og dýraleifar grafist undir jarðlögum þar sem að þær verða fyrir miklum hita og þrýstingi í milljónir ára. Efnasamsetning hráolíu er mjög mismunandi eftir því hvar hún finnst.[1]

Hráolía er fyrst og fremst notuð sem eldsneyti og er sem slík ein mikilvægasta orkuuppspretta heimsins og gríðarlega mikilvæg í efnahagslegu tilliti. Hráolía er þó ekki notuð sem eldsneyti beint, heldur þarf að vinna hana frekar í olíuhreinsunarstöðvum en við það verða til mismunandi afurðir (eftir mismunandi suðupunktum) eins og gas (própan, etan, bútan), bensín, steinolía (þotueldsneyti), dísilolía, brennsluolía, vax og asfalt.

Hráolía er einnig notuð sem hráefni í efnaiðnaði í framleiðslu á leysiefnum, áburði, skordýraeitri og plasti.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Moore, Stanitski, Jurs. (2008). Chemistry: The Moleculer Science (3rd ed.). Ástralía: Thomson, Brooks/Cole.