Fara í innihald

Hryðjuverk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hryðjuverkin 11. september 2001 í Bandaríkjunum.

Hryðjuverk er umdeilt hugtak án nokkurrar almennt viðurkenndrar skilgreiningar. Algengast er að hryðjuverk sé talið hver sú árás sem af ásetningi er beint gegn almennum borgurum til ógnunar sem framin er í þeim tilgangi að ná fram stjórnmálalegum eða öðrum hugmyndafræðilegum markmiðum. Um það er deilt hverjir fremji hryðjuverk (hvort t.d. ríki geti framið hryðjuverk) og að hverjum þau geti beinst (til dæmis hvort árás á hernaðarleg skotmörk geti verið hryðjuverk). Þarna geta komið upp árekstrar við önnur hugtök á borð við stríð og skæruhernað.

Í landslögum ríkja sem og í þjóðarétti hefur verið reynt að skilgreina hryðjuverk, til dæmis segir í íslensku hegningarlögunum[1] í 100. grein m.a:

Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum...

Þetta er mjög áþekkt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á hugtakinu.

Hryðjuverkahugtakið hefur breytt nokkuð um mynd á síðari árum, til dæmis með tilkomu öflugra alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka sem njóta mikillar hylli á ýmsum svæðum heims eða innan ákveðinna þjóðfélagshópa. Ýmis samtök múslímskra hryðjuverkasamtaka, svo sem al-Kaída og Hamas, hafa valdið miklum mannskaða víða um heim og njóta stuðnings ríkisstjórna í ýmsum löndum, svo sem Sýrlandi og Íran.

  1. hegningarlögunum
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.