Hrossasótt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hrossasótt er sjúkdómur í hestum og er haft um innanveiki af ýmsum toga.

Hrossasótt er í raun samheiti yfir sjúkdóma í kviðarholi hrossa. Yfirleitt er orsökin truflanir í meltingarvegi, magaoffylli, stífla, vind- eða krampakveisa eða garnaflækja. Orsakir hrossasóttar má oftast rekja til snöggra breytinga á fóðrun og fóðri, t.d. þegar hestar eru teknir á hús fyrri hluta vetrar.

Helstu einkenni hrossasóttar geta verið að hesturinn missir skyndilega alla matarlyst, krafsar hvar sem hann stendur án þess að grípa niður, slær afturfótum fram undir kvið, lítur aftur fyrir sig á magann og nartar í hann, veltir sér og svitnar mikið. Mikilvægt er að greina öll einkenni á vanlíðan hestsins. Dýralæknir sker svo einn úr um hvað beri að gera og metur ástand hrossins með því að athuga blóðrás, þarmahreyfingar og framkvæmir endaþarmsskoðun.

Ef komið er að hesti sem liggur og hefur einkenni hrossasóttar skal koma honum sem fyrst á fætur og reyna að láta hann hreyfa sig. Batamerki er þegar loft og tað fer að ganga aftur af hestinum.