Fara í innihald

Hnísildýr

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hnísildýr

Vísindaleg flokkun
Veldi: Heilkjörnungar (Eukaryota)
Ríki: Chromalveolata
Yfirfylking: Alveolata
Fylking: Gródýr (Apicomplexa)
Flokkur: Conoidasida
Ættbálkur: Eucoccidiorida
Ætt: Eimeriidae
Ættkvísl: Hnýsildýr (Eimeria)

Hnísildýr (fræðiheiti: Eimeria) eða einfaldlega hníslar[1] eru ættkvísl gródýra sem lifa í meltingarvegi ýmissa hryggdýra og geta valdið hníslasótt. Hnísildýr eru yfirleitt, en ekki alltaf, tegundasérhæfð þannig að hver tegund hnísildýra sýkir aðeins eina hýsiltegund. Hnísildýr klára yfirleitt allan lífsferill sinn innan sama hýsils.

Til er fjöldi hnísildýrategunda sem sýkja margvísleg dýr. Þekktar eru 31 tegund hnísildýra sem sýkja leðurblökur, tvær sem sýkja skjaldbökur, 130 sem sýkja fiska, tvær seli, fimm sýkja lamadýr og alpaca, og aðrar sem sýkja fugla, kanínur, nautgripi, geitur, sauðfé, hreindýr og fleiri hópa.

Hnísildýr valda sjúkdómum og afföllum í landbúnaði um allan heim, þar á meðal á Íslandi. Um 50.000 hnísildýraegg þarf til að kalla fram alvarleg sjúkdómseinkenni í ungum kálfum. Sýkingar eru einnig algengar í alfuglabúum og hefur tjón af völdum hnísildýra í alifuglabúskap verið metið einn og hálfur milljarður dollara (1.500.000.000 $) á ári í Bandaríkjunum einum.

Rannsóknir á hnísildýrum á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]
Þessi hluti er ekki tæmandi upptalning á íslenskum hnísildýrarannsóknum.

Ein rannsókn hefur farið fram á hníslum í íslenska geitastofninum. Í rannsókninni, sem gerð var á kiðlingum af tveimur bæjum, fundust níu tegundir með vissu auk nokkurra sem voru torgreinilegar. Flestar tegundanna voru þekktar um allan heim en einhverjar höfðu aðeins fundist í fáeinum löndum. Algengast var að fjórar til fimm mismunandi tegundir fyndust í hverjum kiðlingi. Þær níu tegundir sem greindust með vissu í rannsókninni voru Eimeria alijevi, E. arloingi, E. caprina, E. caprovina, E. christenseni, E. hirci, E. jolchejevi, E. ninakohlyakimovae og E. tunisensis.[2]

Þrjár tegundir hnísildýra hafa fundist í hreindýrum á Íslandi, Eimeria mayeri, Eimeria rangiferis og Eimeria hreindyria. Síðarnefndu tvær tegundirnar voru áður óþekktar í vísindaheiminum þegar þær fundust í íslenskri rannsókn árið 2006.[1] Talið er að hnísildýrin hafi borist til Íslands með þeim 35 dýrum sem var sleppt í Vopnafirði árið 1784.[1] Engin merki eru um að hnísildýrin hafi neikvæð áhrif á þrif eða viðveru íslenska hreindýrastofnsins.[1]

Rannsókn á saur ellefu kálfa af þremur búum leiddi í ljós að hnísildýraþoljúpa var að finna í saur allra kálfa á einhverjum tímapunkti. Fylgni var á milli fjölda hníslahjúpa sem fundust í saur og niðurgangs hjá kálfum. Níu tegundir greindust í rannsókninni, E. alabamensis, E. auburnensis, E. bovis, E. canadensis, E. cylindrica, E. ellipsoidalis, E. subsphaerica, E. wyomingensis og E. zuernii. Það eru sömu níu tegundir og höfðu áður verið greindar í kálfum á Íslandi.[3]

Nokkrar rannsóknir hafa farið fram á hnísildýrum í sauðfé á Íslandi. Sú fyrsta þar sem hnísildýr úr sauðfé voru tegundagreind var birt árið 1997 þar sem níu eða tíu tegundir hnísildýra fundust: E. ahsata, E. bakuensis, E. crandallis, E. faurei, E. intricata, E. ovinoidalis, E. pallida, E. parva, E. weybridgensis og mögulega tegundin E. granulosa.[4] Seinna var greining E. granulosa staðfest. Allar þessar tíu tegundir greindust síðar í Berufirði. Tegundirnar eru misalgengar eftir árstíðum og sýna jafnvel sækni í ákveðna aldurshópa lamba en þó var meðalfjöldi tegunda í hverju saursýni 7,4. Hníslasótt kom sjaldan eða aldrei fram að vori eða sumri.[5] Ellefta tegundin, E. marsica hefur greinst utan þessara rannsókna.[5] Í sauðfé á Íslandi hafa því fundist að minnsta kosti ellefu tegundir hnísildýra.[6][5]


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Berglind Guðmundsdóttir (2006). Parasites of reindeer (Rangifer tarandus) in Iceland. Geymt 30 nóvember 2020 í Wayback Machine MS-Thesis, Faculty of Medicine. University of Iceland.
  2. Þórdís Fjölnisdóttir (2017). Hnísildýr (Eimeria tegundir) í geitum á Íslandi. BS-ritgerð, líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóli Íslands, 21 bls.
  3. Charlotta Oddsdóttir & Guðný Rut Pálsdóttir (2020). Hníslasmit í ungkálfum - Þróun smits og tegundasamsetning.[óvirkur tengill] Rit Lbhí nr. 134. Landbúnaðarháskóli Íslands. ISBN 978-9935-512-08-6.
  4. Reginsson, K., & Richter, S. H. (1997). Coccidia of the genus Eimeria in sheep in Iceland.[óvirkur tengill] Icelandic Agricultural Sciences, 11, 99-106.
  5. 5,0 5,1 5,2 Skirnisson, K. (2007). Eimeria spp.(Coccidia, Protozoa) infections in a flock of sheep in Iceland: Species composition and seasonal abundance. Icelandic Agricultural Sciences, 20, 73-80.
  6. Skirnisson, K., & Hansson, H. (2006). Causes of diarrhoea in lambs during autumn and early winter in an Icelandic flock of sheep. Icelandic Agricultural Sciences, 19, 43-57.
Yfirlitsmynd af lífsferli hnísildýrs.
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.