Hljóðbókasafn Íslands
Hljóðbókasafn Íslands er ríkisstofnun sem veitir bókasafnsþjónustu þeim sem ekki er unnt að lesa venjulegt prentað letur. Það er gert með miðlun námsgagna og annars fjölbreytts safnefnis, í samræmi við óskir og þarfir notenda. Safnið nýtur sérstakrar undanþágu frá lögum varðandi höfundarétt, til eftirgerðar og dreifingar útgefinna verka, í þágu blindra, sjónskertra, heyrnarlausra, lestrarhamlaðra eða annarra sem sakir fötlunar eiga erfitt með að lestur prentaðs máls.
Lagarammi
[breyta | breyta frumkóða]Stofnunin starfar á grundvelli ákvæða bókasafnalaga[1] og sérstakrar reglugerðar um safnið.[2] Þar segir „Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda.“ (Bókasafnalög nr. 150/2012) [3]
Þessu hlutverki þjónar hljóðbókasafnið með stuðningi undanþágu höfundalaga (laga um höfundarétt) þar sem segir: „Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem vegna fötlunar eiga erfitt með að lesa prentað mál.“ [4] (19. grein Höfundalaga, nr. 73/1972)
Starfsemi
[breyta | breyta frumkóða]Verkefni safnsins er að efla stöðugt og bæta þjónustu við prentleturshamlaða einstaklinga á Íslandi. Sérstök áhersla er lögð á að gera prentleturshömluðum nemendum kleift að nálgast námsefni til jafns við aðra.
Hljóðbókasafnið á mikið safn hljóðbóka og er opið fyrir alla lesblinda einstaklinga sem fengið hafa greiningu. Það er eina bókasafnið á landinu sem framleiðir sjálft megnið af safnkosti sínum. Safnið framleiðir hljóðbækur í fjórum upptökuklefum eigin hljóðvers, með eða án texta. Lesið er allan ársins hring og við bætast 200-300 hljóðbækur á hverju ári, þar af er nokkur fjöldi námsbóka.[5]
Yfirlit yfir hljóðbókakostinn er birt árlega.[6] Heildarfjöldi bóka á safninu er um 11.500 titlar, þar af um 3.500 titlar á ensku.[7]
Þar eru nú á áttunda þúsund íslenskir titlar lesnir.[8] Þar af eru um 3.300 skáldsögur sem hafa komið út á íslensku; um 40 eru í flokknum íslenskar fornbókmenntir auk um 120 titlar í Íslandssögu. Um 60 hljóðbækur falla undir þjóðfræðilegt efni; auk 360 leikrita og 180 ljóðabóka. Um 1.380 íslenskar barna - og unglingabækur eru í safninu ásamt 50 barnaleikritum. Þá eru fjalla um 70 sjálfsræktarbækur og um 850 titlar sem flokkast undir annað.
Virkir lánþegar voru í lok árs 2019 um 14.000. Þar af voru lesblindir um 9.000. Stærsti notendahópurinn er yngra fólk.
Hljóðbókasafnið er ríkisstofnun á A hluta ríkissjóðs, það er sú starfsemi sem að stærstum hluta er fjármögnuð af skatttekjum. Stofnunin er rekin á fjárlögum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Fjárheimildir stofnunarinnar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2021 er um 150 milljónir króna.[9]
Bókasafnið sem er til húsa til húsa á Digranesvegi 5 í Kópavogi, hefur sjö starfsmenn. Lesarar árið 2019 voru 67 talsins.[10]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Samtök blindra hófu bókagerð á blindraletri í kringum 1930. Útgáfan þótti erfið, fáir kunnu blindraletur og margir áttu í erfiðleikum með að læra blindraletur. Hljóðbókasafn Blindrafélags Íslands og Borgarbókasafns í Reykjavík, var sett á fót árið 1975. Öll aðstaða breyttist með tilkomu segulbanda og nýrrar upptökutækni og möguleikum á dreifingu lestrarefnis á segulbandsspólum. Blindrafélagið hafði forgöngu um hljóðritun bóka vorið 1957 og kom upp fyrsta vísi að hljóðbókasafni. Í kringum 1970, fór Borgarbókasafn Reykjavíkur að viða að sér hljóðrituðum sögum frá Ríkisútvarpinu, og bjóða nokkrar bækur sem lesnar voru sérstaklega á vegum safnsins. Í október 1975 gerðu Blindrafélagið og Borgarbókasafn með sér samning um framleiðslu og dreifingu hljóðbóka.[11] Sá háttur var hafður á að Borgarbókasafnið annast dreifingu hljóðbóka og greiddi ein laun tæknimanns, en Blindrafélagið lagði til tækjabúnað og húsnæði. Efniskostnaði var skipt á milli þessara tveggja aðila. Blindrafélagið fékk árið 1978 loks styrk á fjárlögum til hljóðbókagerðar.[12] [13]
Hljóðbókasafnið var stofnað 1. janúar árið 1982, undir nafninu Blindrabókasafn Íslands.[14] Því var ætlað að koma upp ríkisstofnun sem leysti af hólmi Hljóðbókasafn Borgarbókasafns Reykjavíkur og Blindrafélagsins, sem þjónustustofnun við blinda og aðra þá sem ekki gátu fært sér í nyt venjulegt prentletur.[15] Á árunum 2009-2011 var safnkosturinn rafvæddur og jók það aðgengi til muna.[16]
Safnið starfar í dag samkvæmt bókasafnslögum nr. 150/2012 en fyrir þann tíma starfaði það samkvæmt lögum um Blindrabókasafn. Í upphafi framleiddi safnið punktaletursefni en sú starfsemi var flutt í árslok 2008 í sérstaka Þjónustu- og þekkingarmiðstöð.[17]
Við stofnun safnsins jókst mjög þjónusta við blinda, sjónskerta og aðra sem ekki geta notað hefðbundið prentletur. Þannig voru útlán árið 1977 á hljóðbókum frá Borgarbókasafni Reykjavíkur um fimm hundruð á ári. Nú eru útlán um 170 þúsund á ári.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Alþingi (2012). „Bókasafnslög nr. 150/2012“. Alþingi. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Mennta- og menningarmálaráðuneyti (7. október 2013). „Reglugerð um Hljóðbókasafn Íslands“. Mennta- og menningarmálaráðuneyti. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Alþingi (2012). „Bókasafnslög nr. 150/2012“. Alþingi. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Alþingi (29. maí 1972). „Höfundalög nr. 73 /1972“. Alþingi. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Hljóðbókasafn Íslands. „Hljóðver“. Hljóðbókasafn Íslands. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Hljóðbókasafn Íslands. „Bókalistar Hljóðbókasafns Íslands“. Hljóðbókasafn Íslands. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Hljóðbókasafn Íslands. „Bókakostur“. Hljóðbókasafn Íslands. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Hljóðbókasafn Íslands. „Bókalistar Hljóðbókasafns Íslands“. Hljóðbókasafn Íslands. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Fjármála- og efnahagsráðuneytið (2021). „Fylgirit með fjárlögum 2021“ (PDF). Fjármála- og efnahagsráðuneytið. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Hljóðbókasafn Íslands (2020). „Starfsskýrsla Hljóðbókasafnsins 2019“ (PDF). Hljóðbókasafn Íslands. Sótt 13. mars 2021.
- ↑ Helga Ólafsdóttir forstöðumaður (1. nóvember 1985). „Bókasöfn í nýju húsnæði: Blindrabókasafn íslands“. Bókasafnið - 1. tölublað. bls. 10. Sótt 15. mars 2021.
- ↑ Ingvar Gíslason, menntamálaráðherra (21. apríl 1982). „Framsaga í Neðri deild,104. löggjafarþings um Blindrabókasafn Íslands“. Alþingi. - Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing. Sótt 16. mars 2021.
- ↑ Ingvar Gíslason menntamálaráðherra (25. febrúar 1982). „Bókaþjónustu við blinda ber að efla að mun“. Tíminn - 44. Tölublað. bls. 8-9. Sótt 15. mars 2021.
- ↑ Þóra Sigríður Ingólfsdóttir forstöðumaður Blindrabókasafns Íslands (nóvember 2008). „Blindrabókasafn Íslands – hljóðbókasafn á tímamótum“. FREGNIR. Fréttabréf Upplýsingar - Félag bókasafns- og upplýsingafræða. Sótt 2. mars 2021.
- ↑ Morgunblaðið (9. febrúar 1982). „Stjórnarfrumvarp: Blindrabókasafn íslands“. Árvakur. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ María Ólafsdóttir- Morgunblaðið (14. janúar 2013). „Sumar raddir henta ástarsögum best“. Morgunblaðið - Árvakur. bls. 10-11. Sótt 5. mars 2021.
- ↑ Hljóðbókasafn Íslands. „Hlutverk, markmið og saga Hljóðbókasafns Íslands“. Hljóðbókasafn Íslands. Sótt 1. mars 2021.