Fara í innihald

Hljómsveitin XIII

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
XIII
XIII á tónleikum í Tjarnarbíói í tilefni af útgáfu Serpentyne í október 1995
XIII á tónleikum í Tjarnarbíói í tilefni af útgáfu Serpentyne í október 1995
Upplýsingar
Önnur nöfnThirteen, Þrettán
UppruniReykjavík
Ár1993-núverandi
ÚtgáfufyrirtækiSpor, Edda, XIIIbis, Klaki/Endemi
MeðlimirHallur Ingólfsson, Eiríkur Sigurðsson, Jón Ingi Þorvaldsson, Birgir Jónsson
Fyrri meðlimirGuðmundur Þórir Sigurðsson, Gísli Már Sigurjónsson, Sigurður Geirdal, Ingvar Jónsson

Hljómsveitin XIII eða þrettán var stofnuð snemma árs 1993. Upphaflegir meðlimir voru Hallur Ingólfsson (söngur, gítar og trommur), Eiríkur Sigurðsson (gítar) og Guðmundur Þórir Sigurðsson (bassi). Þeir félagar höfðu allir verið saman í hljómsveitinni Bleeding Volcano sem gaf út einn geisladisk, Damcrack, árið 1992. XIII fór í stúdíó um páskana 1993 og tók upp demó sem þeir gáfu út á kassettu sem bar nafnið Fruits. XIII var iðin við að spila á tónleikum en enginn trommuleikari var ráðinn í sveitina heldur var notast við upptökur af trommuleik Halls á tónleikum.

Eitt lag af Fruits, lagið „Thirteen“ fór á safnplötuna Íslensk tónlist 1993 og hlaut talsverða útvarpsspilun. Árni Matthíasson sagði í plötudómi sínum að þetta væri besta lag plötunnar.

XIII hóf upptökur á sinni fyrstu breiðskífu Salt um veturinn 1993 en Guðmundur hafði þá sagt skilið við þá félaga. XIII náði samningi um útgáfu Salt við Spor. Jón Ingi Þorvaldsson var ráðinn bassaleikari sveitarinnar og Salt kom út árið 1994. Salt þótti þung og menn fóru mikinn í gagnrýni í fjölmiðlum. Salt seldist hins vegar ágætlega og er fyrir löngu orðin ófáanleg.

Salt fékk góða umfjöllun í erlendum tónlistartímaritum[heimild vantar] en var ekki fylgt eftir með tónleikum. Einnig birtust nokkur viðtöl við sveitina í rokktímaritum erlendis. Tónlist XIII var oftast skilgreind sem „New Wave/Goth“.

Í ársbyrjun 1995 hætti Eiríkur í XIII og við gítarnum tók Gísli Már Sigurjónsson. Upptökur á annarri breiðskífu XIII, Serpentyne, hófust um sumarið og kom hún út árið 1995. Þótt yfirbragð Serpentyne væri ekki eins myrkt og á Salt var hún síst aðgengilegri. Flóknar útsetningar og miklar pælingar í gangi. XIII hafði ákveðið að segja poppaðri endurtekningu stríð á hendur og þó um sé að ræða vers og viðlög, þá eru útsetningarnar breyttar þegar kaflarnir koma fyrir næst. Umslag Serpentyne þótti mjög vandað og supu stjórnendur Spor kveljur þegar þeir fengu reikninginn.

Birgir Jónsson var nú genginn til liðs við XIII sem trommuleikari sveitarinnar og gerði það XIII að enn kröftugri tónleikasveit. Mikið var spilað og nú skyldi fara erlendis og vinna lönd. Nýjir samstarfsaðilar voru með Spor fyrir dreifingu erlendis. Þetta gafst mun betur og fór talsverð kynning fram í kringum útgáfu Serpentyne í Evrópu árið 1996. Einhver þreyta var þó komin í samstarfið og þar sem tónleikaferðirnar létu á sér standa leystist sveitin eiginlega upp sem hljómsveit um haustið 1996.

Lok samstarfsins við Spor

[breyta | breyta frumkóða]

Hallur Ingólfsson, forsprakki hljómsveitarinnar, reyndi þó að halda boltanum á lofti varðandi útgáfur erlendis. Samstarfinu við Spor var formlega slitið og Hallur fór á stúfana til þess að reyna að ná samningum beint við erlend útgáfufyrirtæki.

Um haustið 1997 bauðst XIII að fara í tónleikaferð um Þýskaland á vegum Semaphore. Þá var hóað saman tiltækum mönnum. Birgir Jónsson sat við trommurnar, Sigurður Geirdal lék á bassa og upptökumaður XIII, Ingvar Jónsson lék á hljómborð. XIII lék á 15 tónleikum víðsvegar um Þýskaland ásamt hljómsveitunum Sieges Even og Avalon. Tónleikadómar í þýsku rokkpressunni um XIII voru afbragðsgóðir. Einn þeirra tók meira að segja svo stórt upp í sig að kalla XIII „best geymda leyndarmál rokksins“.[heimild vantar] Eftir tónleikaferðina héldu þeir félagar hver í sína áttina.

Þarna urðu kaflaskil. Sambandið við Semaphore fjaraði út og útgáfubransinn dróst sífellt saman þar sem hann varð stöðugt verr fyrir barðinu á ólöglegu niðurhali. Halli tóks þó að lenda samningi við frönsku útgáfuna 13bis sem var þá orðin stærsta sjálfstæða útgáfa Frakklands.

Magnifico Nova

[breyta | breyta frumkóða]

Talsverð stefnubreyting hafði orðið í tónlistinni og var stafsetningu „XIII“ breytt í „Thirteen“ en það þótt neytendavænni útfærsla. Undir því nafni kom út breiðskífan Magnifico Nova árið 2002. Hallur vann plötuna að öllu leyti einn. Auk hefðbundinna hljóðfæra notaði Hallur töluvert af „rusl-slagverki“ að hætti Einstuerzende Neubauten.

Á Íslandi tók Edda útgáfan að sér að dreifa Magnifico Nova. Nærri má geta að innan við 200 eintök séu til af Magnifico Nova á Íslandi. Dómar voru þokkalegir. Arnar Eggert Thoroddssen birti dóm í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Sáttur“.[1] Lagið „Supernatural“ fékk talsverða útvarpsspilun og komst í 7. sæti á vinsældarlista X977.

Einir tónleikar voru haldnir á Íslandi af tilefni útgáfu Magnifico Nova í mars árið 2002. Þá skipuðu Thirteen auk Halls, Gísli Már Sigurjónsson á gítar, Össur Hafþórsson á bassa, Hannes Heimir Friðbjörnsson á trommur og Jón Örn Arnarson á slagverk.

Árið 2003 lauk Hallur við gerð nýrrar breiðskífu fyrir 13bis. Þeir lentu í kjölfarið samstarfi um útgáfu á Thirteen við Edel í Þýskalandi. Talsvert var liðið frá því að Hallur lauk við plötuna og bauð 13bis Halli að gera þær breytingar á plötunni sem hann vildi fyrst að Þjóðverjarnir voru til í að leggja peninga í þetta með þeim. Til að gera langa sögu stutta þá tók Hallur alla plötuna upp aftur. Fékk Axel Flex Árnason til að hljóðblanda og mastera og snemma árs 2004 var diskurinn Wintersun tilbúinn. Útgáfan var hins vegar alltaf að frestast. Í janúar 2005 var diskurinn framleiddur og gerður tilbúinn til dreifingar. Babb kom þó í bátinn þar sem dreifingaraðili 13bis, Sony, vildi ekki dreifa titlum sem seljast undir 5000 eintökum í forsölu. Þar strandaði málið og platan hefur því ekki enn komið út.

Sumarið 2009 kom hljómsveitin nokkrum sinnum saman á ný í hljóðveri Halls og var þá skipuð þeim Eiríki Sigurðssyni, gítarleikara, Birgi Jónssyni, trommuleikara og Jóni Inga Þorvaldssyni bassaleikara auk Halls. Þótt allir hefðu þeir verið liðsmenn XIII á einhverjum tímapunkti höfðu þeir aldrei leikið saman með þessa liðsskipan. Eftir nokkrar æfingar kom til tals að halda eina tónleika og varð það úr að skipulagðir voru tónleikar ásamt hljómsveitinni Sólstafir og fóru þeir fram laugardaginn 12. september, sem vill til að bar upp á afmælisdag Halls.

  • Hallur Ingólfsson, gítar, trommur, söngur
  • Guðmundur Þ. Sigurðsson, bassi (1993)
  • Eiríkur Sigurðsson, gítar (1994-1995, 2009-2011)
  • Jón Ingi Þorvaldsson, bassi (1994-1997, 2009-2011)
  • Gísli Sigurjónsson, gítar (1995-1997)
  • Birgir Jónsson, trommur (1995-1997, 2009-2011)
  • Sigurður Geirdal, bassi (1997)
  • Ingvar Jónsson, hljómborð (1997)
  • 1993 - Fruits (hljómsnælda)
  • 1994 - Salt (breiðskífa)
  • 1995 - Serpentyne (breiðskífa)
  • 2002 - Magnifico Nova (breiðskífa)
  • 2005 - Wintersun (breiðskífa)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Arnar Eggert Thoroddsen, „Thirteen“, mbl.is, 6. júní 2002 (mbl.is).